„Ég vil bara vita hvort þú sért bróðir mömmu minnar“

Mynd: Sunna Ben / Aðsend

„Ég vil bara vita hvort þú sért bróðir mömmu minnar“

30.09.2021 - 16:30

Höfundar

„Er þetta pabbi þinn? Getur verið að hann hafi átti heima á Íslandi árið 1962 og gæti hann verið pabbi mömmu minnar?“ spurði Agnes Wild ókunnugan mann á samfélagsmiðlum. Sá reyndist vera móðurbróðir hennar og í gegnum hann fann hún loksins afa sinn sem leitað hafði verið lengi. Hann er búsettur í Minnesota í Bandaríkjunum og er mikill vinur fjölskyldunnar í dag.

Agnes Wild leikstjóri og leikkona var stödd í gamla herbergi sínu á heimili móður sinnar þegar hún fékk örlagarík skilaboð frá manni að nafni Kenny Wild. Agnes hafði haft samband við hann því hana grunaði að hann gæti verið bróðir mömmu hennar. Mamma hennar hafði þá aldrei hitt pabba sinn, en hafði lagst í leit að fjölskyldu sinni í Bandaríkjunum og var vísað á þennan meinta bróður. „Þarna var hún fimmtug og ég sendi honum skilaboð með mynd af afa mínum og sagði: Er þetta pabbi þinn? Var hann á Íslandi? Getur verið að hann hafi átt heima á Íslandi árið 1962 og gæti hann verið pabbi mömmu minnar?“ rifjar Agnes upp í samtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1. Fyrstu viðbrögðin við skilaboðunum voru: „Hvað vilt þú mér?“ segir Agnes „Ég segi: Ég vil ekki neitt, bara vita hvort þú ert bróðir mömmu minnar, því þá áttu systur á Íslandi.“

Vann sem hjúkrunarkona með vinkonu sinni og borðaði franskar og sjeik

Leitin að afanum hófst fyrst þegar Agnes var sjálf kornabarn. Móðir hennar vissi að hún ætti systkini því faðir hennar hafði sagt móður hennar að hann ætti önnur börn. Hún vissi að hann væri Wild og byggi í Bandaríkjunum en leitin bar ekki árangur fyrr en mæðgurnar settu sig í samband við uppruna-leitarsíðu. Fjölskylduvinur aðstoðaði þær við leitina, sem leiddi þær á fjörur Kennys Wild sem átti alsystur, ekki svo ólíka móður Agnesar.

Afinn umræddi, Jerry Wild, var í sambandi við ömmu Agnesar þegar hún starfaði sem hjúkrunarkona i Minneappolis en hún var, eins og Agnes segir kímin: „að vinna sem hjúkka með vinkonu sinni, borða franskar, sjeik og hamborgara á hverjum degi.“ Hún verður ófrísk og þau halda sambandi fyrsta ár barnsins, en svo missir Jerry áhugann og hún ákveður að ala barnið upp ein. Hún nefndi dótturina Dora Wild í höfuðið á föðurömmunni, líkt og faðirinn hafði óskað, þegar hann var enn inni í myndinni. 

Bjó í dimmum pappakassa með þrjá stóla

Þegar Kenny Wild fannst komust þær svo fljótlega í kynni við Jerry, afa Agnesar. Ömmu hennar fannst spennandi tilhugsun að hitta fyrrum elskhuga sinn og slóst því í för með þeim mæðgum, bræðrum Agnesar og stjúpföður þegar leið þeirra lá Bandaríkjanna, að hitta manninn í Portland.

Þegar þangað var komið varð ljóst að maðurinn bjó í svokölluðu trailer park. Þar sat hann, fyrir utan heimili sitt sem var hálfgerður pappakassi. „Hann situr á stól á hvítum hlýrabol að borða jógúrt og reykja,“ segir Agnes. Hann bauð fjölskyldunni inn að skoða heimkynnin, dimma pappakassann sem í vantaði nær öll húsgögn ef frá eru taldir þrír stólar. „Amma, mamma og afi sitja þar og við hin á jörðinni og þarna gerast einhverjir galdrar, við spjölluðum og hann er bara gamall maður í ellinni sem sér eftir mörgu í lífinu. Hann er búinn að vera í alls konar fíkn en er mjög góður maður,“ segir Agnes um afa sinn.

Reykingalykt og skítugir veggir

Jerry hafði ekki verið í miklu sambandi við börnin sín um hríð, nema eina dóttur. Þarna bættist önnur við og fagnaðarfundirnir voru miklir. Þau heimsóttu hann svo aftur árið 2019, þegar hann var farinn að sýna merki um elliglöp og var fluttur á hrörlegt elliheimili. „Hann á ekki mikið af peningum og var á mjög hræðilegum stað. Þetta var bara, maður labbaði inn og það var gras- og reykingalykt, skítugir veggir. Risastór og mikill maður í rafmagnshjólastól með lítinn chihuahua hund sem bjó þarna líka. Ég bara, þetta er svo mikil klikkun.“ Fjölskyldan bankaði á dyr afans en hann ansaði hvorki bankinu né símanum. Þegar hann loksins kom til dyra bauð hann þeim í litla dimma holu. Agnes og móðir hennar tóku strax til við að þrífa og sortera og svo hjálpaðist fjölskyldan að við að bera mublur hans í flutningabíl því til stóð að hann flytti á betra heimili, fyrir fólk með elliglöp. Fjölskyldan var fegin að koma þangað. „Við pökkuðum karlinum saman og fluttum hann á þetta fína heimili þar sem eru gluggar og tré,“ segir Agnes. Jerry er enn lifandi og hringir oft í dóttur sína, móður Agnesar og spjallar þá heillengi við hana.

„Núna væri barnaverndarnefnd löngu búin að taka mig“

Agnes er alin upp í leikfélaginu í Mosfellsbæ en amma hennar og mamma eru báðar leikkonur. Amma hennar, María Guðmundsdóttir er meðal annars þekkt fyrir uppistand, hlutverk sín í sketsum Steinda og fyrir að leika í frægu atriði í þáttunum Konfekt, þar sem hún listar upp ýmsar vörur í síma og þar á meðal svokallað tussuduft. Móðir Agnesar, Dora Wild, var einnig í áhugaleikhóp í leikfélagi Mosfellsbæjar þegar Agnes var að alast upp. Hún fór gjarnan með móður sinni á æfingar þar á kvöldin. „Hún verandi einstæð, tók okkur með. Við bara sofnuðum á þriðja bekk á gólfinu með úlpuna yfir okkur, og svo vorum við bara borin heim. Mamma talar um að ef þetta væri núna væri barnavernd löngu búin að taka mig en þarna var þetta bara eðlilegt,“ segir Agnes og hlær.

Amma sár yfir að fá ekki hlutverk

Agnes fetaði leikarabrautina líkt og móðir hennar og amma og stýrir nú leikhópnum Miðnætti ásamt tónlistarkonunni Sigrúnu Harðardóttur og leikmynda- og búningahönnuðinum Evu Björgu Harðardóttur. Þær hafa sett upp fjölmargar sýningar, meðal annars Ronju Ræningjadóttur með leikfélagi Mosfellsbæjar, með Maríu Ólafsdóttur söngkonu í aðalhlutverki. Dora Wild, móðir Agnesar, fór með hlutverk Skalla-Péturs. „Amma fékk ekki hlutverk og var mjög sár: Jah, ég fékk ekkert hlutverk Agnes. Ég eitthvað; Nei, amma það passar ekki alveg, það eru ræningjar en engin gömul kona,“ segir Agnes glettin.

Upplifunarsýning fyrir yngstu kynslóðina

Agnes bjó í London í sex ár þar sem hún lærði á sviðshöfundabraut. Þar setti hún upp sýningar, sem meðal annars rötuðu á fjalirnar í Tjarnarbíói hér heima. Nú er hún að leikstýra sýningu með Miðnætti í Borgarleikhúsinu, barnaverki sem nefnist Tjaldið og er hugsað fyrir þriggja mánaða til þriggja ára áhorfendur. Agnes lýsir verkinu sem upplifunarsýningu og verður hún frumsýnd tíunda október á afmæli sjálfs leikstjórans.

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Agnesi Wild í Segðu mér á Rás 1.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Ótrúlegt að finna föður sinn eftir 37 ára leit