Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bílaframleiðsla dregst saman á Bretlandseyjum

epa06784503 The new model of SUV Rolls-Royce Cullinan on display at Rolls-Royce Motor Cars Abu Dhabi Motors in Abu Dhabi, United Arab Emirates, 04 June 2018. The new Cullinan, sold for around 2.2 million emirati dirham (about 602,245 USD), is powered by 6.75-litre twin-turbo 12 valve engine, with all-wheel steer system in addition to all-wheel drive.  EPA-EFE/ALI HAIDER
 Mynd: EPA
Bílaframleiðsla á Bretlandi í ágústmánuði dróst saman um 27 prósent samanborið við sama tíma í fyrra. Helst má kenna samdráttinn skorti á hálfleiðurum sem hefur hægt á bílaframleiðslu um allan heim.

Það er þó ekki eina ástæðan að sögn Mike Hawes framkvæmdastjóra samtaka breskra bílaframleiðenda og -sala. Einnig megi kenna árstíðabundnum lokunum verksmiðja um stöðuna.

Hawes segir samdráttinn þar í landi verulegt áhyggjuefni, bæði fyrir bílaiðnaðinn og ekki síst fyrir þær þúsundir sem þar starfa. Flestar bílaverksmiðjur Bretlands eru í erlendri eigu en í ágúst framleiddu þær 37 þúsund farartæki en ríflega 50 þúsund á sama tíma árið áður. 

Heldur tók að birta til í framleiðslu bíla í ársbyrjun en eftir því sem leið á árið gerði skortur á tölvukubbum sem nauðsynlegir eru nútímafarartækjum vart við sig.

Mjög hefur dregið úr framleiðslu þeirra undanfarið vegna aukinnar útbreiðslu kórónuveirunnar í löndum á borð við Malasíu þar sem þeir eru framleiddir.