Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Tímabil aðgæslu að fara í hönd við Keili og Öskju

29.09.2021 - 18:44
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Aukinn kraftur er kominn í jarðskjálftahrinu við Keili. Um 400 skjálftar hafa mælst frá miðnætti, þar af 3 skjálftar yfir þremur að stærð. Þeir eru flestir á svipuðum slóðum, um kílómetra suðvestur af Keili og á fimm til sjö kílómetra dýpi. Búist er við nýjum gervitunglamyndum í kvöld eða á morgun sem varpa frekara ljósi á skjálftahrinuna.

„Þessi hrina byrjaði 27. september og hún hefur verið af miklum krafti í dag. Síðan um miðnætti hafa um 400 skjálftar mælst, stærsti 3,5 að stærð. Þeir eru allir að raða sér á milli Keilis og Litla Hrúts. Þannig að það er mikið í gangi hjá okkur, mikið stuð.“ segir Lovísa Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Hvað teljið þið að sé að gerast þarna? 

„Það er of snemmt að segja til um það. Einn möguleikinn er að kvikan sé að brjóta sér leið þarna upp. Hinn möguleikinn er að þetta sé venjuleg hrina af því að það eru flekaskil þarna. Við bíðum spennt eftir að sjá gervitunglamyndir og sjá hvort að það sé eitthvað að lyfta sér upp þarna sem bendir þá til að þetta sé kvika, eða ekki.“ segir Lovísa.

Sennilega nóg af kviku til staðar

Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur segir að nú sé að fara í hönd sérstakt aðgæslutímabil á meðan eldgosið í Fagradalsfjalli er ekki sýnilegt.

„Við vitum það að í gegnum gosið hefur meðalstreymið eða flæði bergkviku upp á yfirborðið verið tiltölulega svipað, þó að það séu sveiflur og gosið stoppar og svona en að meðaltali er þetta um 10 rúmmetrar á sekúndu af kviku sem hafa komið þarna upp. Ekkert hægt á því. Það segir okkur að líklega hefur  þrýstingur ekkert fallið af ráði í þessum kvikugeymi sem  fæðir þessa atburðarás. Líklega er bergkvika til staðar, einhver óstöðugleiki eða vandræði við að koma henni upp á yfirborð og þess vegna, þegar það er skjálftavirkni þá er ekki hægt að útiloka þann möguleika að bergkvika sé að reyna að finna sér nýjar leiðir.“ segir Freysteinn.

Hann segir líklegast að komi til þess að það byrji að gjósa á nýjum stað verði það í námunda við Keili. Það svæði tengist kvikuganginum undir eldstöðinni við Fagradalsfjall. Neðst í kvikuganginum virðist vera nokkurskonar veikleiki þar sem kvika nær að troða sér. 

„Ég myndi segja að þetta svæði væri líklegast þó svo að auðvitað geti þessi atburðarás bara fjarað út. Þetta gæti líka verið ákveðinn endir á gosvirkni þegar skjálftavirkni tekur sig upp svona. Við höfum alltaf sagt að við eigum að horfa á Reykjanesskagann í heild. Að það geti verið umbrot yfir stærra svæði. Við þurfum bara að hafa varann á okkur. Ef þetta byrjar annars staðar á skaganum þá er það ekki endilega tengt þessarri kvikueiningu sem við höfum verið að tappa af en við teljum að það geti verið kvika víðar undir skaganum.“ segir Freysteinn. 

Enn hætta á stórum skjálfta við Brennisteinsfjöll

Menn hafa löngum haft áhyggjur af því að stór skjálfti á Reykjanesskaga líkt og sá sem varð við Brennisteinsfjöll árið 1968. Sú hætta er enn til staðar.

„Sú sviðsmynd hefur í rauninni ekkert breyst frá upphafi þessara umbrota. Við teljum ákveðnar líkur á að þegar það er svona umbrotatímabil að það muni einhvern tíma  koma að því að það losni spenna á þessum hluta flekaskilanna sem á eftir að losna um, sem er í kringum Brennisteinsfjöll, en það er ekkert sérstakt við þessa skjálftavirkni núna sem segir okkur að virknin sé að færast þangað,“ segir Freysteinn. 

Askja rís áfram

Önnur eldstöð sem hefur látið á sér kræla undanfarið er Askja. Vísindamenn fylgjast grannt með jarðskorpuhreyfingum þar og landrisi. Jarðskjálftar hafa ekki verið margir á þessu svæði en sá viðsnúningur hefur orðið að land er tekið að rísa, eftir langt tímabil þar sem þrýstingur hefur minnkað og landsig átt sér stað. Hann segir möguleika á gosi í Öskju.

„Já, það er vissulega möguleiki á gosi. Askja er mjög virkt eldfjall en Askja er sérstakt eldfjall. Hún heitir Askja af því að þar hafa orðið miklar þrýstibreytingar grunnt í rótum eldstöðvarinnar tengt stórum eldgosum eða kvikustreymi inni í jarðskorpuna í miklum gliðnunaratburðum. Einkenni á slíkum eldfjöllum er að þar geta jarðskorpuhreyfingar orðið meiri en víða annars staðar. Askja getur líka hugsanlega tekið við talsvert miklu magni af kviku áður en kemur til umbrota.“ segir Freysteinn.

Rætt var við Freystein í Speglinum. Viðtal við hann má heyra hér að ofan.