
Segjast hafa ráðlagt forsetanum að halda eftir herliði
Hershöfðingjarnir Mark Milley, yfirmaður Herforingjaráðs Bandaríkjanna og Kenneth McKenzie, yfirmaður heraflans í Afganistan segjast hafa ráðlagt forsetanum að halda 2.500 hermönnum áfram í landinu.
Þetta kom fram í næstum sex klukkustunda langri yfirheyrslu hermálanefndar Bandaríkjaþings sem Lloyd Austin varnarmálaráðherra var einnig viðstaddur.
Tilgangurinn var að grafast fyrir um brotthvarf Bandaríkjahers frá Afganistan og þá upplausn sem ríkti síðustu dagana áður en hann hvarf á braut. Biden fyrirskipaði í apríl brotthvarf alls herafla úr landinu fyrir ágústlok.
Með því fylgdi hann eftir samkomulagi Donalds Trump, forvera síns, við Talibana. Jen Psaki, blaðafulltrúi Hvíta hússins, segir Biden hafa fengið margvísleg ráð um hvað gera skyldi í Afganistan.
Að lokum hafi hann tekið þá ákvörðun að réttast væri að ljúka tuttugu ára stríðsþátttöku Bandaríkjanna í landinu.
Milley hershöfðingi sagði við yfirheyrslurnar að segja mætti að trúverðugleiki Bandaríkjanna hefði beðið hnekki við atburðarásina, bæði gagnvart bandamönnum þeirra og andstæðingum.
Hann sagði Talibana vera hryðjuverkasamtök sem hefðu ekki rofið tengsl við Al Kaída. Hann sagði jafnframt afar áríðandi að vernda Bandaríkjamenn gagnvart mögulegum hryðjuverkaárásum, skipulögðum í Afganistan.
Hann sagði sömuleiðis að símtöl hans til General Li Zuocheng, æðsta manns herráðs Kína, undir lok valdatíðar Trumps hafi verið til að draga úr spennu. Honum hafi verið mjög í mun að sannfæra kollega sinn um að Bandaríkjamenn ætluðu sér alls ekki að ráðast að Kína.
Lloyd Austin varnarmálaráðherra sagði Bandaríkjamenn hvorki hafa áttað sig á hve djúpstæð spilling ríkti innan afganska heraflans né hve illa honum var stjórnað. Litlar eða engar varnir hersins gagnvart framgangi Talibana hafi komið mjög á óvart.
„Það væri óheiðarlegt af mér að halda öðru fram,“ sagði Austin. Afganski herinn hafi fengið hergögn, flugvélar og vopn af öðru tagi en honum hafi ekki verið blásinn baráttuandi í brjóst.