Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Sakar arftaka sinn um sviksemi í garð Frakka

epa07207787 Former prime minister Malcolm Turnbull speaks to media after delivering an address at the NSW Smart Energy Summit in Sydney, New South Wales (NSW), Australia, 04 December 2018.  EPA-EFE/DAN HIMBRECHTS  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Malcolm Turnbull, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, fullyrðir að Scott Morrison arftaki hans hafi viljandi villt um fyrir Frökkum þegar 30 milljarða evra samningi um kaup á kafbátum var rift.

Í stað frönsku kafbátanna ákvað ríkisstjórnin að leita á náðir Bandaríkjamanna um aðgang að tækni til smíði kjarnorkuknúinna báta á næstu árum og áratugum. Peter Dutton, varnarmálaráðherra Ástralíu útilokar ekki að leigja kafbáta af Bandaríkjamönnum eða Bretum þar til smíði nýrra báta lýkur.

Það er hluti þríhliða samnings ríkjanna um varnarsamstarf á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. Turnbull fullyrðir að þrátt fyrir samkomulag um beitingu bandarískrar tækni við kafbátasmíði liggi enginn raunverulegur samningur um kafbátakaup á borðinu.

Hann segir því enga kafbátaáætlun til, að Ástralir eignist ekki kafbáta næstu 20 árin og að þeir verið mun dýrari en þeir frönsku. Ríkisstjórn Turnbulls samdi um kaup frönsku kafbátanna árið 2016.

Forsætisráðherrann fyrrverandi segir Morrison engin rök hafa fært fram fyrir riftuninni önnur en þjóðarhagsmuni Ástralíu og staðhæfir að framferði Morrisons skaði samskipti Ástrala við Evrópu til framtíðar.

Frökkum finnist þeir hafa verið sviknir og niðurlægðir og Turnbull segir ríkisstjórnina hafa sýnt þeim lítilsvirðingu. Franskir ráðamenn líktu ákvörðun Ástrala við rýtingsstungu í bakið og kölluðu sendiherra sína heim frá Ástralíu og Bandaríkjunum.

Sendiherra Frakklands snýr aftur til Washington í vikunni eftir samtal Joe Biden Bandaríkjaforseta og Emmanuels Macron Frakklandsforseta. Hann hefur ekki rætt við Morrison og því enn ekki útlit fyrir að endurkomu sendiherra til Canberra.