Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Jarðskjálfti 3,5 að stærð við Keili

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Jarðskjálfti, 3,5 að stærð, varð klukkan 11:05 í dag, samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofunnar. Skjálftahrina hófst við Keili á mánudag og í gær voru skjálftarnir yfir 100 og tugir hafa komið frá miðnætti. Skjálftinn fannst vel í Útvarpshúsinu í Efstaleiti og tilkynningar hafa borist Veðurstofunni um að hann hafi fundist víða um höfuðborgarsvæðið. 

Um klukkan tvö í nótt varð skjálfti á þessum slóðum sem var 3,0 að stærð. Upptök skjálftanna eru á um fimm til sjö kílómetra dýpi og sagði Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, í samtali við fréttastofu að annað hvort séu þeir vegna flekaskila eða kviku sem sé á ferðinni. Hún segir of snemmt að segja nokkuð til um það núna hvað skjálftinn um klukkan 11 þýði í því samhengi.

Skjálftarnir eru nyrst í kvikuinnskotinu sem tengist eldgosinu í Fagradalsfjalli og því líklegt að það sé tenging á milli en þó ekki hægt að fullyrða um slíkt með vissu, að sögn Lovísu Mjallar.

Almannavarnir eru vakandi yfir stöðunni og fylgjast vel með, að sögn Hjördísar Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúa. Enn sem komið er hefur ekki verið gripið til sérstaks viðbúnaðar vegna hrinunnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.