Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Evergrande selur milljarða virði í hlutabréfum

29.09.2021 - 04:15
epa09490914 People walk past Exchange Square, the building housing the bourse, in Hong Kong, China, 27 September 2021. China Evergrande has plunged 82 percent in 2021, erasing almost 20 billion US dollar of value.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kínverski fasteignarisinn Evergrande hyggst selja hlutabréf í Shengjing bankanum fyrir jafngildi 202 milljarða íslenskra króna. Kaupandinn er ríkisrekið eignastýringarfyrirtæki.

Þetta kemur fram í tilkynningu fyrirtækisins til kauphallarinnar í Hong Kong. Evergrande hefur átt í miklum kröggum og rambaði um tíma á barmi gjaldþrots sem olli verðlækkunum á mörkuðum víða um heim.

Fyrir viku tilkynntu stjórnendur þess að tekist hefði að semja við kínverska lánardrottna. Kínversk stjórnvöld hvetja stjórnendur ríkisrekinna fyrirtækja til að kaupa hlutabréf í Evergrande.

Evergrande er með viðmikinn rekstur um gervallt Kína. Um 200 þúsund manns vinna hjá fyrirtækinu, og kveðst það ábyrgt fyrir nærri fjórum milljónum afleiddra starfa. Skuldir fyrirtækisins nema um 300 milljörðum Bandaríkjadala.