Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ekki útilokað að kvika sé á hreyfingu við Keili

Mynd: RÚV - Þór Ægisson / RÚV
Hálfu ári eftir að jarðskjálftahrinu á Reykjanesskaga linnti með því að eldur braust upp við Fagradalsfjall og þegar hálfur mánuður er síðan síðast sást gjósa, er ný skjálftahrina hafin.  

Yfir sextíu jarðskjálftar hafa mælst við fjallið Keili síðan á miðnætti. Sá stærsti var þrír komma fimm að stærð um klukkan ellefu í morgun og fannst hann vel á höfuðborgarsvæðinu. Skjálftahrina hófst við fjallið á mánudag og eru upptök skjálftanna á um fimm til sjö kílómetra dýpi. 

Um 160 skjálftar hafa mælst og hafa þeir farið stækkandi, sögn Kristínar Jónsdóttur, hópstjóra náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands. „Það er svolítið erfitt að átta sig á því hvað það er að gerast þarna. Þessir skjálftar eru í rauninni á sama stað og við vitum að gangurinn myndaðist alveg nyrst í honum og þeir eru á svona fimm til sjö kílómetra dýpi. Við getum auðvitað ekki útilokað það að þarna sé kvika á hreyfingu og við erum að sjá núna að þetta er lengsta goshléið, ef svo má segja, síðan 19. mars,“ sagði Kristín í viðtali í beinni útsendingu í hádegisfréttum um það hvort tengsl séu milli gossins í Fagradalsfjalli og skjálftanna nú. 

Kristín bendir á að það hafi gerst áður að gosvirknin hafi dottið niður en að hléið núna sé það lengsta. „Það er spurning hvort að kvikan sé að leita að nýjum vegum til að komast upp.“

Þannig að þér kæmi ekkert á óvart ef eldur brytist út einhvers staðar við Keili? „Ég held að þetta sé sviðsmynd sem við þurfum alvarlega að íhuga.“

Vísindamenn hafa ekki séð nein merki um þenslu við Keili. „En auðvitað vitum við að þarna myndaðist þessi gangur þannig að svæðið er búið að þenjast heilmikið þannig að þetta er ein sviðsmyndin sem er ekki óhugsandi en það getur líka vel verið að þetta séu einhvers konar afleiðingar af þessum miklu hreyfingum sem hafa orðið þarna.“

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV

Almannavarnir eru vakandi yfir stöðunni og fylgjast vel með. Enn sem komið er hefur ekki verið gripið til sérstaks viðbúnaðar vegna hrinunnar.