Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

140.000 manns eiga eftir að nýta ferðagjöfina

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Yfir 140.000 manns eiga eftir að nýta ferðagjöf stjórnvalda að hluta eða að öllu leyti. Frestur til að nýta hana rennur út á miðnætti á morgun.  Allir landsmenn átján ára og eldri fengu gjöfina fyrr á árinu og var hún hugsuð til að örva ferðaþjónustuna á tímum heimsfaraldurs.

Um 280.000 manns stendur gjöfin til boða. Tæp 194.000 hafa sótt hana en af þeim eiga um 37.000 eftir að nýta hana. Hún hefur mest verið notuð hjá N1 og næst mest hjá Sky Lagoon. Þar á eftir koma Olíuverzlun Íslands og KFC og hafa heyrst gagnrýnisraddir vegna þess.

Elías Gíslason, forstöðumaður Ferðamálastofu, var spurður út í gagnrýnina í Morgunútvarpinu á Rás tvö í morgun. „Hún á rétt á sér að hluta vegna þess að tilgangurinn með gjöfinni var sá að fá fólk til þess að ferðast og kannski út fyrir sitt heimasvæði en við sjáum það, og sérstaklega á endasprettinum í vor, að þá var mikið verið að nýta þetta í skyndibita og bensín og annað þess háttar. Við lögðum nú til ákveðnar breytingar en löggjafinn var nú ekki tilbúinn til þess að taka tillit til þeirra þegar það var verið að samþykkja þessa nýju ferðagjöf. Þannig að þetta var nú svo sem alveg viðbúið,“ sagði Elías. 

Á vefnum Mælaborði ferðaþjónustunnar má sjá sundurliðun um ferðagjöfina og þar er eftirfarandi listi um þau fyrirtæki þar sem mestu af ferðagjöfinni hefur verið varið.

  • N1 55.000.000 kr.
  • Sky Lagoon 39.000.000 kr.
  • Olíuverzlun Íslands 37.000.000 kr.
  • KFC 28.000.000 kr.
  • Icelandair hotel 22.000.000 kr.
  • Flyover Iceland 21.000.000 kr.
  • Icelandair 20.000.000 kr.
  • Hlöllabátar 18.000.000 kr.
  • Tix miðasala 18.000.000 kr.