Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Vill að Olaf Scholz fái að mynda stjórn

epa09352067 Leader of the Christian Social Union (CSU) and Bavaria's State Premier Markus Soeder (R) and German Minister of Finance Olaf Scholz (4-L) visit the areas damaged by floods in Schoenau am Koenigssee, Germany, 18 July 2021. Heavy rainfall had led to flooding in southeastern Bavaria during the night.  EPA-EFE/LUKAS BARTH-TUTTAS
Olaf Scholz og Markus Söder kanna aðstæður eftir flóðin miklu í Þýskalandi síðastliðið sumar. Mynd: EPA-EFE
Markus Söder, leiðtogi CSU, systurflokks Kristilegra demókrata í Bæjaralandi, telur réttast að Olaf Scholz, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins í Þýskalandi, fái fyrstur tækifæri til að mynda stjórn eftir þingkosningarnar á sunnudag. 

Söder greindi frá þessari skoðun sinni á fundi með fréttamönnum í Berlín í dag. Hann benti á að flokkur jafnaðarmanna væri orðinn fjölmennastur á þingi og því ætti Scholz fyrstur að fá að reyna að mynda stjórn.

Þjóðverjar virðast vera sammála bæverska leiðtoganum. Í skoðanakönnun sem þýski ríkisfjölmiðillinn ARD birtir í dag segja 55 prósent aðspurðra að þeir vilji helst sjá svokallaða umferðarljósastjórn, það er stjórn Jafnaðarmanna, Frjálslyndra demókrata og Græningja. Mun færri, eða 33 prósent, vilja að Kristilegu flokkarnir verði við stjórnvölinn á komandi kjörtímabili með Frjálslyndum demókrötum og Græningjum. 

Þá leiðir ný könnun dagblaðsins Augsburger Allgemeine í ljós að Armin Laschet, leiðtogi Kristilega demókrata, er ekki tiltakanlega hátt skrifaður hjá kjósendum um þessar mundir. Þar segir 71 prósent að Laschet eigi ekki skilið að hljóta embætti Þýskalandskanslara.  

Þýskir fjölmiðlar benda á það í dag að Laschet hafi enn ekki óskað Olaf Scholz til hamingju með sigurinn.