Veðrið á enn eftir að versna - eldingu sló niður

28.09.2021 - 12:42
Mynd: RÚV - Anna Þorbjörg Jónasdó / RÚV - Anna Þorbjörg Jónasdó
Aftakaveður er á norðvestanverðu landinu þar sem appelsínugul veðurviðvörun er í gildi. Rúta fauk út af í Hrútafirði, vegir eru víða lokaðir og rafmagnslaust var um tíma á Húsavík. Foráttuhvasst verður vestanlands í dag, en illviðrið ætti að ganga niður þegar líður á kvöldið.

Rætt var við Elínu Björk Jónasdóttur veðurfræðing í beinni útsendingu í hádegisfréttum. Hún sagði versta veðrið yfirstaðið á norðaustanverðu landinu. Þar var víða ofankoma í morgun og víða var hvasst. Lægðin er nú við norðurströndina og færir sig til vesturs. Eldingu sló niður á Skaga og mikið snjóar á Tröllaskaga. Veðrið versnar svo á Breiðafirði og Vestfjörðum síðar í dag.

Verst verður veðrið á fjallvegum á Vestfjörðum. Vindstrengir ná sér eflaust vel á strik og Snæfellsnesið er einnig undir. Á höfuðborgarsvæðinu verður hvasst og snjókoma sem gæti spillt færð. En þar verður þó mun skaplegra veður en þetta ofsaveður sem er fyrir norðan og vestan.

„Það er byrjað að blása“

Einar Þór Strand fer fyrir björgunarsveitum í aðgerðarstjórn á Snæfellsnesi. Hann sagði að nú rétt áðan var ákveðið að loka vegum á sunnanverðu Snæfellsnesi, eingöngu vegna hvassviðris.

„Hann er að skella á núna. Það er byrjað að blása,“ sagði Einar Þór Strand.

Í spilaranum hér að ofan má heyra umfjöllun fréttastofu um illviðrið úr hádegisfréttum.