Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telur sig hafa verið á staðnum þegar myndir voru teknar

28.09.2021 - 16:10
Mynd með færslu
Ingi Tryggvason, fyrrverandi formaður yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis. Mynd: RÚV
„Mér sýnist að þessi mynd sé tekin áður en ég fór, ég tók til að mynda með mér þessi gögn sem sjást á borðinu á annari myndinni. Það var ekkert á borðinu þegar ég fór,“ segir Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi. Vefmiðlar hafa í dag birt tvær myndir sem birtar voru á Instagram og voru teknar af talningastað á Hótel Borgarnesi. Myndirnar hafa verið fjarlægðar og eigandi hótelsins viðurkennir að þær hafi verið óheppilegar.

Talning atkvæða í Norðvesturkjördæmi hefur sætt nokkurri gagnrýni, ekki síst eftir að atkvæðamagn allra flokka breyttist í endurtalningu og fimm jöfununarþingmenn duttu út af þingi og aðrir fimm komu inn í staðinn.

Talningin hefur annars vegar verið kærð til lögreglu og hins vegar kjörbréfanefndar Alþingis. Gunnar Örn Jónsson, lögreglustjóri hjá lögreglunni á Vesturlandi, vildi ekki tjá sig um rannsókn lögreglu. Það eina sem hann gæti staðfest væri að lögreglan hefði móttekið kæruna. 

Ingi segir í samtali við fréttastofu að það sé vissulega óheppilegt að atkvæði allra flokka hafi breyst. Í ljós hafi komið mannleg mistök sem búið sé að leiðrétta.  

Visir.is, Stundin og Fréttablaðið hafi í dag birt tvær myndir sem tengdadóttir hótelstjóra Hótels Borgarness er sögð hafa birt á Instagram og sýna salinn þar sem atkvæði voru talin. Fréttastofu hefur ekki tekist að ná tali af henni, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og því hefur ekki verið hægt að fá það staðfest hvenær nákvæmlega myndirnar voru teknar.

Ingi skoðaði aðra myndina á meðan fréttastofa ræddi við hann og segist telja að hann hafi ekki verið farinn þegar hún var tekin.. „Ég tók til að mynda þessi gögn sem sjást á henni með mér þegar ég fór á sunnudagsmorgun.“  Það hafi ekki verið neitt á þessu borði þegar hann fór. Hin myndin sýni tóma atkvæðakassa að vestan.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er ekkert athugavert við að myndir séu teknar af talningastað, svo lengi sem yfirkjörstjórn er á staðnum. Fréttastofa streymdi til að mynda beint frá talningu atkvæða í Suðurkjördæmi í gærkvöld.

Bjarney Bjarnadóttir, frambjóðandi Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi, fullyrðir hins vegar á Twitter-síðu sinni að myndirnar hafi verið teknar eftir að kjörstjórn og talningafólk var farið af staðnum. 

Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í kjördæminu, spyr á Facebook-síðu sinni hvort það sé hefð fyrir því að „aðili, sem ekki er starfsmaður yfirkjörstjórnar, spókar sig um í tómum salnum og tekur myndir af óinnsigluðum kjörgögnum eftir að fyrri talningu lauk.“ Magnús hefur kært kosninguna til kjörbréfanefndar Alþingis.

Karl Gauti Hjaltason, sem hefur kært málið til lögreglu, segir á Facebook-síðu sinni, að myndin sýni að kjörgögn séu handónýt og endurtalningin að engu hafandi. 

Steinn Agnar Pétursson, annar af eigendum Hótel Borgarness, viðurkennir í samtali við fréttastofu að þessar myndir og birting þeirra séu hið óheppilegasta mál en ekkert sé við því að gera.  Hótelið hafi lengi hýst talningu atkvæða og taki hlutverk sitt mjög alvarlega.

Hann segir að þrír starfsmenn hafi verið inni í forsalnum sem er fyrir framan sjálfan talningasalinn en enginn óviðkomandi umferð hafi verið um salinn þar sem atkvæði voru talinn. „Það er verið að gera allt við þetta tortryggilegt,“ segir Steinn.

Hótelið er búið að koma upptökunum úr eftirlitsmyndavélunum til réttra aðila.

Landskjörstjórn kemur saman til fundar núna síðdegis til að fara yfir framkvæmd kosninganna og skýrslur yfirkjörstjórna.

Meðal þess sem landskjörstjórn mun skoða er hvort einhverjir óviðkomandi hafi verið á talningastað í Borgarnesi þar sem kjörgögn voru geymd.  Það verður gert með því óska eftir staðfestingu á því að enginn sjáist á upptökum úr eftirlitsmyndavélum inni í talningasalnum eftir að yfirkjörstjórn fór.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV