Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Messi skoraði sitt fyrsta mark fyrir PSG í sigri á City

epa09494374 Paris Saint Germain's Lionel Messi celebrates scoring the 2-0 lead during the UEFA Champions League group A soccer match between PSG and Manchester City at the Parc des Princes stadium in Paris, France, 28 September 2021.  EPA-EFE/YOAN VALAT
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Messi skoraði sitt fyrsta mark fyrir PSG í sigri á City

28.09.2021 - 20:57
Leikið var í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Stórleikur dagsins var án efa viðureign Englandsmeistara Manchester City og Paris Saint-Germain sem fram fór í Frakklandi. Lionel Messi tókst í leiknum loksins að skora fyrir nýja liðið sitt.

Messi var í byrjunarliðið PSG sem byrjaði betur og skoraði fyrsta markið. Þar var það Idrissa Gueye sem kom boltanum í netið og staðan orðin 1-0. Annað markið kom svo ekki fyrr en á 74. mínútu og það var mark sem var beðið eftir lengi. Lionel Messi skráði sig þá loks á markareikning PSG með góðu marki eftir hælsendingu frá Kylian Mbappé. 2-0 urðu lokatölur og PSG er því á toppi A-riðils eftir að tveir leikir hafa verið spilaðir með jafn mörg stig og Club Brugge. 

Liverpool mætti á Drekavöllinn í Porto í Portúgal þar sem liðið mætti heimamönnum. Curtis Jones átti skot á markið á 18. mínútu en Diogo Costa, markvörður Porto, sló boltann út í teig þar sem Mohamed Salah var vel á verði og kom boltanum í netið. Á síðustu mínútum fyrri hálfleiks átti James Milner sendingu inn fyrir á Sadio Mané sem var ekki rangstæður og skoraði annað mark Liverpool, 0-2 í hálfleik.

Salah bætti þriðja marki Liverpool við á 60. mínútu eftir stoðsendingu frá Jones. Porto náði að klóra í bakkann með marki frá Mehdi Taremi á 75. mínútu en Liverpool-menn voru ekki lengi að svara fyrir sig en það var Roberto Firmino sem gerði það. Firmino átti svo eftir að skora annað mark áður en leiktíminn var úti og lokatölur urðu 1-5. Liverpool er því öruggt í efsta sæti B-riðils með tvo sigra og sex stig. 

Óvæntustu úrslit kvöldsins urðu svo líklegast þau að Moldóvska liðið Sheriff Tiraspol lagði Real Madrid að velli 2-1 eftir mark á síðustu mínútum leiksins. Karim Benzema skoraði eina mark Madrídarliðsins úr vítaspyrnu. Sheriff er þar með komið á toppi D-riðils með 6 stig. Þetta eru fyrstu leikir liðsins í Meistaradeildinni í sögunni en liðið er fyrsta liðið frá Moldóvu sem spilar í deildinni. 

Önnur úrslit kvöldsins urðu þessi:

A-riðill
Leipzig - Club Brugge 1-2

B-riðill
AC Milan - Atletico Madrid 1-2

C-riðill
Ajax - Beşiktaş 2-0
Dortmund - Sporting 1-0

D-riðill
Shakhtar Donetsk - Inter 0-0