Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Breskur lávarður sagður verja Samherja í Namibíu

28.09.2021 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Edward Garnier, lögmaður og fyrrverandi þingmaður breska Íhaldsflokksins, er sagður hafa verið ráðinn sem lögmaður Samherja til að verjast framsalskröfu namibískra yfirvalda. Ríkissaksóknari Namibíu vill fá þrjá Íslendinga framselda, þá Aðalstein Helgason, Egil Helga Árnason og Ingvar Júlíusson. Garnier fullyrðir að ekkert land, sem eigi aðild að mannréttindasáttmála Evrópu, muni afgreiða framsalsbeiðnina.

Þetta kemur fram á vef The Namibian.  

Íslendingarnir þrír voru allir nefndir í ákæruskjali saksóknara sem birt var í febrúar.  Þeir stýrðu eða komu að stjórnun fyrirtækja Samherja í Namibíu.  Þeir hafa ekki verið ákærðir þótt vilji saksóknara standi til þess.

Saksóknari hefur nú lagt fram kröfu um frystingu eigna en Garnier segir saksóknarann ekki geta gert slíka kröfu þar sem Íslendingarnir hafi ekki enn verið ákærðir. 

Til þess að þeir verði ákærðir þurfi fyrst að fá þá framselda og  augljóst sé að saksóknari viti ekki hvar þremenningarnir séu niðurkomnir.  Óljóst sé því hvert framsalsbeiðninni verði beint. 

Þá bendir Garnier á að ekki sé hægt krefjast framsals yfir fyrirtæki eins og Samherja og einstaklingur verði heldur ekki framseldur í þágu rannsóknar.

Garnier er fyrrverandi þingmaður breska Íhaldsflokksins og á nú sæti í lávarðadeildinni.  Hann var lögmaður Johns Major þegar forsætisráðherrann fyrrverandi tók þátt í málsókn vegna ákvörðunar stjórnvalda um lengra þinghlé í tengslum við Brexit-deiluna.

Íslensk yfirvöld hafa þegar hafnað kröfu namibískra stjórnvalda um að Íslendingarnir verði framseldir. Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, sagði við fréttastofu í apríl að engin heimild væri í lögum til að framselja íslenska ríkisborgara.

Saksóknarinn í Namibíu hefur þó ekki geifð upp alla von, ef marka má greinargerð hennar í síðustu viku sem The Namibian fjallar um. 

Þar kemur meðal annars fram að yfirvöld séu að reyna að staðsetja Íslendinganna. Ekki hafi verið gefin út handtökuskipun þar sem þeir séu ekki í Namibíu. Þá sé ekki óvanalegt að hefja framsalsferli fyrr en búið sé að gefa út ákæru.