Breski herinn í viðbragðsstöðu

28.09.2021 - 04:33
Erlent · Bretland · Brexit · Evrópa
epa09491327 Cars queue at a Tesco garage in Frien Barnet in London, Britain, 27 September 2021. A shortage of lorry drivers and panic buying has led to fuel shortages in forecourts and petrol stations across the UK.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Breski herinn hefur verið settur í viðbragðsstöðu vegna eldsneytismála í Bretlandi. AFP fréttastofan hefur þetta eftir tilkynningu Fjármála-, orku- og iðnaðarráðuneytisins. Þar segir að takmarkaður fjöldi vörubílstjóra úr hernum hafi verið settur í viðbragðsstöðu ef ske kynni að stjórnvöld verði að grípa til ráðstafana varðandi framboð á eldsneyti í landinu.

Bresku stjórninni hefur gengið illa að halda ró almennings vegna stöðunnar á eldsneytismarkaði í landinu. Nóg er til af bensíni og olíu á birgðastöðum í landinu. Vandamálið liggur í því að fáir vöruflutningabílstjórar eru til taks til að flytja eldsneytið til smásala. Því hafa myndast langar biðraðir víða í breskum borgum, þar sem bílstjórar óttast eldsneytisskort. Það hefur orðið raunin víða í landinu.

Skortur á vöruflutningabílstjórum stafar af innflytjendareglum í Bretlandi eftir útgönguna úr Evrópusambandinu. Mjög stór hluti bílstjóra var frá ríkjum í austanverðri Evrópu, sem urðu frá að hverfa eftir að þeir misstu landvistarleyfið í kjölfar Brexit. Stjórnvöld hafa brugðið á það ráð að veita tímabundið landvistarleyfi til jóla fyrir vöruflutningabílstjóra. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV