Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Vantar fólk í sláturtíð — „Við látum þetta ganga“

27.09.2021 - 15:35
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Enn hefur ekki tekist að fullmanna sláturhús Norðlenska á Húsavík þrátt fyrir að nokkrar vikur séu frá því sláturtíð hófst. Starfsmannastjóri segir að mönnunarhallærið skapi aukið álag og að enn vanti að minnsta kosti fimm starfsmenn.

Ráða árlega um 120 starfsmenn í sláturtíð

Það er Vikublaðið sem greinir frá þessu. Árlega eru ráðnir um 120 starfsmenn til starfa hjá sláturhúsi Norðlenska á Húsavík í sláturtíð. Flestir starfsmenn koma erlendis frá en vegna faraldursins hefur reynst erfitt að ráða í allar stöður. Jóna Jónsdóttir er starfsmannastjóri Norðlenska. 

Minni ferðavilji og færri umsóknir frá heimafólki

„Þetta er svolítið annað landslag núna en undanfarin ár. Við höfum alltaf haft úr nægum umsóknum að velja og verið búin að manna sláturtíð löngu áður en hún byrjar. Það var ekki þannig núna, það voru bara færri umsóknir. Eins og það sé minni ferðavilji erlendis frá. Samanburðurinn hérna innanlands var þannig að það voru mikið færri umsóknir frá innanlandsfólki. Það er held ég minna atvinnuleysi en var í fyrra og fólk ekki eins tilbúið að ráða sig í svona tímabundið starfa eins og var í fyrra.“ segir Jóna.

Þurfa fimm starfsmenn í viðbót

Jóna segir að þetta mannahallæri muni ekki endilega tefja sláturtíðina heldur frekar valda meira álagi á því fólki sem er á staðnum. „Við látum þetta ganga en auðvitað verður fólk bara þreyttara. En það væri gott að hafa svona fimm starfsmenn í viðbót.“

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan - RÚV
Húsavík