Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Telur ekki þörf á endurtalningu í öllum kjördæmum

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Landskjörstjórn kemur saman til fundar í dag þar sem óskað verður eftir skýrslu frá yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi um framkvæmd kosninganna. Yfirkjörstjórn í Suðurkjördæmi kemur einnig saman í dag og tekur ákvörðun um mögulega endurtalningu.

„Næstu skrefin hjá Landskjörstjórn eru að hittast á fundi í dag og fara yfir stöðuna. Munum óska eftir skýrslu frá yfirkjörstjórn í Norðurlandi vestra um framkvæmdina og ástæður fyrir þess að það breyttust niðurstöður í talningu atkvæða og hugsanlega skýrslu frá öðrum yfirkjörstjórnum líka,“ segir Kristín Edwald, formaður Landskjörstjórnar.

Óskir hafa komið fram um endurtalningu atkvæða í Suðurkjördæmi og mun yfirkjörstjórn þar taka afstöðu til þess á fundi í dag. Kristín segir að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar sjái hún ekki þörf á endurtalningu í öðrum kjördæmum. Það sé þó yfirkjörstjórna á hverjum stað að taka ákvörðun um það enda hafi landskjörstjórn ekki boðvald yfir yfirkjörstjórnum.

Formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi sagði í viðalti við Vísi að kjörögn hafi ekki verið innsigluð að talningu lokinni. Ekki hafi verið hefð fyrir því en gögnin voru geymd í læstum sal á hóteli í Borgarnesi að lokinni talningu.  „Kosningalögin eru alveg skýr. Það ber að innsigla kjörgögnin og hafi það ekki verið gert þá er það ekki í samræmi við kosningalög,“ segir Kristín og segir óútséð hvaða áhrif þetta getur haft á endanlega niðurstöðu kosninganna. „Nú þekki ég ekki aðstæður þarna, veit ekki hvernig gengið var frá gögnunum þannig að ég get ekki sagt neitt til um það á þessari stundu.“

Berist kæra vegna framkvæmdar kosninganna er það á endanum Alþingi sem tekur hana til umfjöllunar. Kristín viðurkennir að þessi uppákoma sé óheppileg. „Þetta er óheppilegt. Það er afskaplega mikilvægt að framkvæmd kosninga sé þannig að það sé allt hafið yfir vafa.“

Landskjörstjórn fær boð- og eftirlitshlutverk þegar ný kosningalög taka gildi um áramótin og segir Kristín að þessi uppákoma hljóti að vera eitt af því sem nefndin tekur til skoðunar þegar þar að kemur.