Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Telja aftur í Suðurkjördæmi

27.09.2021 - 14:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Á fundi yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis í dag ákvað yfirkjörstjórn að endurtelja atkvæði sem greidd voru í Suðurkjördæmi í kosningum til Alþingis hinn 25. september 2021.

Fjórir stjórnmálaflokkar, Vinstri græn, Píratar, Sjálfstæðisflokkur og Sósíalistaflokkur, höfðu kallað eftir því að talið yrði aftur, vegna þess hversu mjótt var á munum milli tveggja flokka. Aðeins munaði sjö atkvæðum á fulltrúum Vinstri grænna og Miðflokksins. Vinstri græn náðu engum manni inn í kjördæminu en Birgir Þórarinsson var kjörinn inn fyrir Miðflokkinn. 

Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar, segir að þeim hafi þótt rétt að telja aftur í ljósi þess að kallað hafi verið eftir því: „Okkur þótti rétt að gera þetta þótt það sé umfram lagaskyldu. Og þetta lýsir engu vantrausti á hendur starfsfólki sem hefur unnið af miklum heilindum,“ segir hann. Í stikkprufu sem var gerð í gær til að kanna gæðamál og verkferla hafi ekki verið nein merki um misræmi í talningu.

Talning fer fram í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi í dag, 27. september, 2021, og hefst kl. 19. Þórir segir að umboðsmenn listanna verði boðaðir til fundar hálftíma fyrr. Talning verði fyrir opnum tjöldum í samræmi við lög, sem þýði að almenningi sé heimilt að koma og fylgjast með.