Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ótrygg raforka á Norðvesturlandi tefur uppbyggingu

27.09.2021 - 14:43
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Ótrygg raforka á Norðurlandi vestra stendur aukinni fjárfestingu og atvinnuþróun þar fyrir þrifum. Framkvæmdastjóri sambands sveitarfélaga í landshlutanum segir að löng bið eftir raforku hafi fælt fjárfesta frá verkefnum sem farin voru af stað.

Á síðustu árum hafa Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra leitt verkefni í þeim tilgangi að auka þar fjárfestingar og fjölga störfum. Þar má nefna ýmis verkefni í matvælaframleiðslu, fleiri gagnaver og tengda starfsemi, koltrefjaverksmiðju á Sauðárkróki og fleira.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, segir að forsenda þessarar uppbyggingar sé aukin raforka. Flutningsgeta raforkukerfisins dugi hins vegar ekki til að veita nægu rafmagni um landshlutann.

Miðað við áætlanir Landsnets um uppbyggingu raforkukerfisins gæti staðan orðið ásættanleg eftir tíu ár. Það sé allt of löng bið. Almennt taki það fyrirtæki í mesta lagi þrjú ár að undirbúa fjárfestingar á borð við þær sem nú sé horft til. Dæmi séu um að þetta hafi fælt fjárfesta frá verkefnum sem farin voru af stað

Unnur segir að það sem fyrst og fremst stöðvi uppbyggingu og þróun raforkukerfisins sé mjög flókið regluverk. Það verði að einfalda og sem allra fyrst.