Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lífskjarasamningar í gildi út samningstímann

27.09.2021 - 17:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - RÚv
Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög ASÍ hafa sammælst um að Lífskjarasamningar standi og halda þeir því gildi sínu þar til þeir renna út þann 1. nóvember 2022.

Frá þessu er greint í tilkynningu sem SA sendu frá sér á fimmta tímanum í dag.

Þar segir að Lífskjarasamningur SA og aðildarfélaga ASÍ hvíli á forsendum sem ekki stóðust fullkomlega. Ástæðan er sú að stjórnvöld hafi ekki efnt öll þau fyrirheit sem fram komu í yfirlýsingu þeirra frá 4. apríl 2019.

Samninganefnd Alþýðusambands Íslands og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins hittust á fundi í dag um framhald Lífskjarasamningsins, en ef forsendur hans bregðast getur hvor samningsaðili sagt honum upp fyrir kl. 16:00 þann 30. september.

Fram kemur í tilkynningunni að á fundinum í dag hafi komið fram vilji af beggja hálfu til þess að samningar standi. Munu þeir því halda gildi sínu þar til þeir renna formlega út þann 1. nóvember 2022.

Jón Agnar Ólason