Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Karl Gauti kærir endurtalningu atkvæða til lögreglu

27.09.2021 - 10:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Karl Gauti Hjaltason, sem var í framboði fyrir Miðflokkinn í Suðvesturkjördæmi, hefur ákveðið að kæra endurtalningu atkvæðanna og meðferð þeirra í Norðvesturkjördæmi til lögreglu.

Karl Gauti var inni sem jöfnunarþingmaður í Suðvesturkjördæmi, þar til endurtalið var í Norðvesturkjördæmi. Þar kom í ljós skekkja sem hreyfði við jöfnunarþingmönnum milli kjördæma. Það leiddi til þess að Karl Gauti datt út sem jöfnunarþingmaður Miðflokksins, en Bergþór Ólason kom inn sem jöfnunarmaður flokksins í Norðvesturkjördæmi.

„Ég er að vinna að kæru til lögreglu þar sem ég fer fram á að hún upplýsi atvik og atburðarás varðandi þessa endurtalningu þarna í Norðvestur,“ segir Karl Gauti í samtali við fréttastofu.

Formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi hefur viðurkennt að kjörgögn hafi ekki verið innsigluð að talningu lokinni, líkt og lög gera ráð fyrir. Karl Gauti vill að atburðarásin verði upplýst.

„Hvað gerðist þarna, hvernig var þessi ákvörðun tekin? Hvar voru atkvæðaseðlarnir á meðan yfirkjörstjórn brá sér frá? Hafði einhver aðgang að þeim. Var hugsanlegt að einhver hefði getað nálgast þau? Lögregla er best til þess fallinn að upplýsa þetta á hlutlausan hátt,“ segir Karl Gauti.

Hann segist enga ástæðu hafa til þess að ætla að átt hafi verið við gögnin. En úrslit eftir endurtalningu séu ekki trúverðug þar sem atkvæðamagn allra flokka í kjördæminu hafi breyst.

„Ef það er mögulegt að einhver hafi getað nálgast atkvæðabunkanna, þá eru þeir auðvitað þar með ónýtir. Þá skiptir engu máli hvað þú telur þá oft. Við þurfum að fá að vita hvað gerðist,“ segir Karl Gauti.

„Þetta er mjög mikilvægt fyrir lýðræðið í landinu. Það má ekki rýra trúverðugleika kosninga, talningar og úrslit kosninga. Þessi aðferð sem þarna er vekur áhyggjur af trúverðugleika kosninganna. Það er alvarlegt fyrir lýðræðið,“ segir Karl Gauti Hjaltason.