Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gul veðurviðvörun norðvestantil á landinu

27.09.2021 - 06:54
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofan
Kröpp lægð þokast nú til vesturs fyrir norðan land. Henni fylgir hvöss norðanátt með slyddu eða snjókomu norðvestantil á landinu og eru gular veðurviðvaranir í gildi á þeim slóðum. Seint í dag dregur úr vindi og úrkomu.

Norðanáttin verður einnig stíf á suðvesturlandi, en í öðrum landshlutum verður hægari vindur og þurrt að mestu. Seinnipartinn fer þó að rigna suðaustantil á landinu. Hiti núll til átta stig, svalast á Vestfjörðum.

Á vef Vegagerðarinnar er bent á að vetrarfærð sé víða á fjallvegum og vegfarendur eru beðnir um að kanna aðstæður áður en lagt er af stað í lengri ferðir.

Á morgun gengur önnur djúp lægð til vesturs fyrir norðan land. Þá er útlit fyrir norðvestan og vestan 15 til 23 metra á sekúndu á norður- og norðvesturlandi með talsverðri snjókomu eða slyddu, og á Vestfjörðum hvessir enn frekar þegar líður á daginn. Á þessum slóðum er því útlit fyrir þunga færð og slæmt ferðaveður.

Síðdegis á morgun dregur úr ofankomunni og þá dregur úr vindi annað kvöld. Sunnan- og austanlands verður hins vegar hægari vindur og rigning eða slydda með köflum.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV