Framboð P og J sendu ekki umboðsmann á kosninganótt

27.09.2021 - 16:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjögur framboð, Pírata, Sósíalistaflokksins, Frjálslynda lýðræðisflokksins og Miðflokksins, sendu ekki umboðsmann að talningu í Suðurkjördæmi á kosninganótt. Umboðsmenn framboðs Framsóknarflokksins hafa lýst því yfir að þeir telji ekki ástæðu til að telja aftur.

„Það er auðvitað slæmt að umboðsmenn mæti ekki því eftirlit þeirra er hluti af lýðræðislegu eftirliti með framkvæmd kosninga. Auðvitað skýtur það svo skökku við þegar tveir þeirra kæra talninguna eftir á og vilja fá endurtalningu. En þetta er þeirra réttur, að vera viðstaddir talningu og uppgjör atkvæða. Það skiptir máli að lýðræðið virki og þetta er hluti af því eftirliti sem á að vera í gangi,“ segir Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi.

Framsókn sér ekki ástæðu til endurtalningar

Fimm flokkar hafa óskað eftir endurtalningu í Suðurkjördæmi; Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn, Píratar og nú síðast Samfylkingin. Umboðsmenn B-lista Framsóknarflokks hafa hins vegar sent yfirkjörstjórn yfirlýsingu um að þeir telji enga þörf á endurtalningu.

Nákvæm talning 

Þórir útskýrir að hvert atkvæði sé flokkað af tveimur mismunandi einstaklingum: „Það er, það er flokkað af einum og yfirfarið af öðrum. Svo er það sett til hliðar og svo er talið í bunka og hver bunki er talinn af að minnsta kosti tveimur einstaklingum þar til sama niðurstaða fæst hjá báðum. Og báðir kvitta fyrir talninguna. Og þetta fór svo í það í nótt, þegar verið var að ganga frá, að hver bunki var talinn upp fimm sinnum, og alltaf rétt.“

Þórir spáir því að endurtalning, sem hefst klukkan sjö í kvöld, taki þrjá til fimm klukkutíma. 

Fréttin hefur verið leiðrétt

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV