Fljúgandi furðuhlutur reyndist geimflaug

27.09.2021 - 23:01
Mynd: Sandra Björk Ragnarsdóttir / Sandra Björk Ragnarsdóttir
Einkennilegt ljós sást á himni yfir Þorlákshöfn laust fyrir klukkan 22:00 í kvöld. Ljósið leið norður yfir bæinn og var sýnilegt í um 5 til 7 mínútur. Fjölmargir höfðu samband við fréttastofu til að deila myndum og með ábendingar um hvað var þarna á seyði.

Sandra Björk Ragnarsdóttir, íbúi í Þorlákshöfn, og maður hennar náðu myndum af fyrirbærinu og sendu á fréttastofu. Hún sagði ljósið hafa verið sýnilegt í um 5 til 7 mínutur en svo leið það norður á bóginn og hvarf að endingu bakvið ský í áttina að Ingólfsfjalli.

Aðspurð sagði Sandra Björk að engin hljóð hefðu fylgt hinu fljúgandi fyrirbæri, það hafi liðið yfir himininn algerlega hljóðlaust. Hún gat ekki sagt til um með vissu hve hátt hluturinn var á lofti en hann hvarf loks bakvið ský sem gefur einhverja vísbendingu um það.

Þau hjónin segja útilokað að um dróna hafi verið að ræða, til þess hafi ljósið verið of hátt á lofti og auk þess hafi engin blikkandi smáljós hafi á hlutnum. Einnig sögðu þau ekki um halastjörnu að ræða því þær draga á eftir sér slóða sem lýsir en þessi hlutur af rekið ljósadreifðina á undan sér, líkt og ljóskastari.

Fréttastofa hafði samband við Veðurstofu Íslands og sagði Salóme Jórunn Bernharðsdóttir sérfræðingur í samtali að sér hefði borist álíka tilkynning frá Vestmannaeyjum um ljósagang á himni. Samkvæmt lýsingu er þar um sama hlutinn að ræða.

Raunin er sú að þarna var á ferðinni Atlas V geimflaug á vegum bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. Henni var skotið upp frá Vandenberg geimherstöðinni í Kaliforníu með Landsat 9 gervihnött sem fer á braut um jörðu. Það sem sást til héðan frá Íslandi, og víðar á norðurhveli, var geimflaugin að losa sig við eldsneyti, að sögn Sævars Helga Bragasonar, ritstjóra Stjörnufræðivefsins. Þannig varð úr þetta sjónarspil sem vakti athygli og undrun margra.

Uppfært 28.9.2021 klukkan 00:13.