Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Erfitt að sjá hverjir eru inni og hverjir ekki"

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skoðanakannanir fyrir kosningar sýndu að talsverð hreyfing var á fylgi flokkanna fram á síðustu stundu. Erfitt sé að segja til um, út frá könnunum, hvaða þingmenn ná kjöri líkt og kom í ljós í gær, segir framkvæmdastjóri Maskínu.

„Mér finnst hafa tekist ágætlega til og kannanir sýndu þá þróun sem var í gangi þessa síðustu daga.  Bæði við og önnur fyrirtæki sem framkvæmdu kannanir merktu töluverða hreyfingu á fylginu sem var í sumum tilfellum meira en síðustu tölur gerðu ráð fyrir. Svo má ekki gleyma því að við skilum síðustu könnunum tveimur dögum fyrir kosningar. Eftir það mátti merkja tilfærslu því fólk var að flykkjast í ákveðnar áttir", segir Þóra Ásgeirsdóttir framkvæmdastjóri Maskínu. 

Hún segir að prýðilega hafi tekist að spá fyrir um úrslitin. Flestir flokkar voru innan við eins og tveggja prósenta vikmörk. „Það sem kannski fjölmiðlar og frambjóðendur og kannski þjóðin líka vill fyrir kosningar er að vita hversu marga þingmenn flokkarnir fá. Eins og dagurinn í gær sýndi þá er mjög erfitt að segja hverjir eru inni og hverjir ekki".      

En það eru einhverjir flokkar sem skoðanakannanir ná ekki fanga? „Það sem fjölmiðlar, frambjóðendur og kannski þjóðin vill fá að vita fyrir kosningar er hve marga þingmenn flokkarnir fá. Eins og dagurinn í gær sýndi þá er mjög erfitt að segja hverjir eru inni og hverjir ekki".

Eva Heiða Önnudóttir stjórnmálafræðingur benti á það á Rás tvö í morgun að margir kjósendur hefðu ekki ákveðið sig fyrr en á síðustu stundu.  "Þess vegna er mögulegt að fylgið hafi sveiflast á milli flokka.  Það er ekkert endilega víst að kannanir hafi verið gallaðar heldur að menn hafi ákveðið sig á síðasta degi".
 
 

Arnar Björnsson