Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Ég hef engar áhyggjur af geymslunni á þessum gögnum“

27.09.2021 - 18:52
Formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi segist þess fullviss að enginn hafi komist að kjörgögnum, þó þau hafi ekki verið innsigluð eftir talningu eftir alþingiskosningarnar.

Frágangur kjörgagna í Norðvesturkjördæmi hefur verið gagnrýndur fyrir að vera ekki lögum samkvæmt, en kjörgögnin voru skilin eftir á talningstað þegar yfirkjörstjórn fór frá, ekki innsigluð en í læstum sal á Hótel Borgarnesi. Þar eru þó öryggismyndavélar.

„Ég hef engar áhyggjur af geymslunni á þessum gögnum. Það er algjörlega 100% og meira en það að það fór enginn inn svæðið þennan stutta tíma sem að enginn úr yfirkjörstjórn var þarna staddur,“ segir Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi.

Þannig að þetta er eingöngu mistalning?

„Eingöngu það, það er enginn vísbending um að óviðkomandi hafi farið inn á þetta svæði, það bara gerðist ekki.“

Kjörgögnin voru síðan flutt af hótelinu og á lögreglustöðina í Borgarnesi og geymd inni í fangaklefa. Sá klefi mun víst vera innsiglaður.

„Þetta er bagalegt mál“

Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar, segir stjórnina vilja fá að vita hvað gerðist og hvað hafi farið úrskeiðis og því ómögulegt að segja hvenær kjörbréf til nýs þings verða gefin út. Ekki sé hægt að segja hve langur tími líður þar til búið er að fara yfir skýrslur yfirkjörstjórna og fá botn í málið.

„Þetta er bagalegt mál, þetta er mjög óheppilegt. Trúverðugleiki kosninga er auðvitað gífurlega mikilvægur og þess vegna höfum við í raun þessa þrjá öryggisventla,“ segir Kristín Edwald.

Þessir þrír öryggisventlar eru að talning fari fram fyrir opnum tjöldum, að umboðsmenn flokkanna geti verið viðstaddir og frágangur kjörgagna sé tryggur.