Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eftirlit hert með forsætisráðherra Hollands

27.09.2021 - 17:20
epa09428916 Mark Rutte (VVD) and Sophie Hermans (VVD) at the Binnenhof prior to a conversation with informateur Hamer about the cabinet formation, in The Hague, the Netherlands, 25 August 2021. Coalition talks are ongoing since the general elections in March 2021.  EPA-EFE/Bart Maat
Mark Rutte mætir til stjórnarmyndunarviðræðna í þinghúsinu í Haag.  Mynd: EPA-EFE - ANP
Hollenska lögreglan óttast að Mark Rutte forsætisráðherra kunni að verða rænt eða að eiturlyfjagengi ráðist á hann. Hann hefur til þessa farið flestra sinna ferða á hjóli án þess að lífverðir séu með í för. Morð á rannsóknarblaðamanni og lögmanni sem tengdust réttarhöldum gegn glæpahópnum Mocro Mafia hafa orðið til þess að yfirvöld hafa áhyggjur af öryggi forsætisráðherrans.

 

Dagblaðið De Telegraaf og nokkrar fréttastofur greina frá þessu í dag. Rutte var spurður að þessu þegar hann mætti fótgangandi til stjórnarmyndunarviðræðna í þinghúsinu í Haag. Hann varðist frétta og sagði það ófrávíkjanlega reglu að ræða ekki öryggismál. Skrifstofa forsætisráðherra játar hvorki tíðindunum né neitar, ekki heldur embætti ríkissaksóknara né stofnunin sem samhæfir baráttu hollensku lögreglunnar gegn glæpum og hryðjuverkum. 

Geert Wilders, leiðtoga öfgaþjóðernissinna, er gætt allan sólarhringinn vegna morðhótana. Hann skrifaði á Twitter í dag að honum þættu tíðindin hörmuleg. Engum vildi hann óska þess að þurfa að sæta stöðugri öryggisgæslu. 

Í frétt De Telegraaf kemur fram að sérsveitarmönnum sem alla jafna hafa eftirlit með konungsfjölskyldunni og erlendum sendimönnum hafi verið falið að gæta öryggis Ruttes. Þeim er meðal annars falið að hafa eftirlit með fólki sem talið er tengjast Mocro mafíunni. Í henni eru aðallega glæpamenn frá Marokkó og Antilla-eyjum í Vestur-Indíum. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV