Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Yngsti þingmaðurinn segir þjóðina vera komna með nóg

26.09.2021 - 11:21
Mynd með færslu
 Mynd: Lenya Rún - Aðsend
Lenya Rún Taha Karim, nýr þingmaður Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður, er yngsti þingmaður sögunnar til að ná kjöri. Hún segir ljóst að þjóðin vilji fá fleira ungt fólk og fólk af erlendum uppruna inn á þing.

„Ég vaknaði bara fyrir ekki svo löngu - ég ætla ekki að ljúga því - og setti símann af Airplane mode og það var allt að springa. Fullt, fullt, fullt af skilaboðum og ég náði að glugga í ein skilaboð og þar stóð: Til hamingju, þannig að ég gerði þá ráð fyrir að ég hefði komst inn,“ segir Lenya.

Hún segist ekki hafa búist við að komast inn á þing. „Nei, engan veginn. Þegar ég fór að sofa í gær var ég mjög langt frá því að komast inn á þing,“ segir Lenya.

Lenya er yngsti þingmaður sögunnar til að ná kjöri. Hún er tuttugu og eins árs og er 22 dögum yngri en Jóhanna María Sigmundsdóttir var þegar hún tók sæti fyrir Framsóknarflokkinn árið 2013.

„Ég held að ég sé ekki ennþá búin að meðtaka að ég sé orðin þingmaður. Ég er í rosalega miklu spennufalli en að sjálfsögðu er þetta ótrúlega góð tilfinning. Ég held að þetta sýni einmitt líka vilja þjóðarinnar um að þau vilji fá ungt fólk inn á þing - unga fólkið vill hafa rödd þarna inni - og líka bara fólk af erlendum uppruna, þessir hópar sem fá sjaldan, eða eiginlega aldrei, áheyrn í samfélaginu inn á Alþingi. Þau vilja sinn fulltrúa þarna inni,“ segir Lenya.

„Ég held að íslenska þjóðin sé komin með nóg. Síðustu fjögur ár hafa ekkert verið glæsileg og frábær. Mín kynslóð og fólkið sem ég er búin að umkringjast fóru öll og kusu til þess að hafa áhrif fyrst og fremst. Þau vildu hafa bein áhrif og það er með því að kjósa,“ segir hún.

Hún segir að ekki liggi fyrir hvað taki við í dag. „Ég er ennþá að reyna að svara öllum skilaboðum sem ég er búin að vera að fá, ég er að fara í nokkur viðtöl og ég þarf örugglega að reyna að skipuleggja mig aðeins, athuga hvernig ég ætla að klára skólaárið eða hvort ég ætla að klára skólaárið. Þetta verður bara spennandi að sjá,“ segir Lenya.

Hún segist hlakka til að taka sæti á þingi og láta til sín taka þar. „Ég er þarna fyrst og fremst til þess að hafa áhrif. Ég held að þetta verði rosalega gaman.“