Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Væri skrýtið ef Píratar myndu ekki bregðast við“

26.09.2021 - 19:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Ég er eiginlega búin að vera hlæjandi síðustu 45 mínúturnar af því ég veit ekki alveg hvernig ég á að tækla þessar tilfinningar en að sjálfsögðu er ég vonsvikin, annað væri skrýtið. Ég hélt að ég væri að fara inn og að ég væri að fara að gera mjög góða hluti,“ segir Lenya Rún Taha Karim, sem fyrr í dag var yngsti kjörni þingmaður Íslandssögunnar en hefur nú dottið út af þingi eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi.

Lenya var í þriðja sæti á lista Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður og komst inn á þing sem jöfnunarþingmaður í morgun. Hún var því yngsti kjörni þingmaður Íslandssögunnar í um níu klukkutíma í dag. Hún er tuttugu og eins árs og er 22 dögum yngri en Jóhanna María Sigmundsdóttir var þegar hún tók sæti fyrir Framsóknarflokkinn árið 2013.

Lenya segir að hún hafi lesið það fyrst í fjölmiðlum að atkvæði yrðu endurtalin í Norðvesturkjördæmi. „Ég vissi að sjálfsögðu að ég væri tæp því ég er jöfnunarmaður en ég var eiginlega bara að búa mig undir það versta því að þetta er svo skrýtið. Þetta er svo súrrealískt - að vera yngsti kjörni þingmaðurinn. Ég var ekki ennþá búin að meðtaka fréttirnar að ég væri kjörin á þing þannig að þetta er allt í góðu,“ segir Lenya

Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata og umboðsmaður listans í Norðvesturkjördæmi, gagnrýndi harðlega framkvæmd talningu atkvæða og endurtalningu, fyrr í kvöld.

Þá gagnrýndi Magnús einnig hvernig gengið var frá kjörgögnum eftir að talningu atkvæða lauk í morgun. Þau hafi ekki verið innsigluð og ekki gætt nægilega vel. Þau hafi verið skilin eftir á hóteli í Borgarnesi og talningafólk farið heim. 

„Ég held að það væri eitthvað skrýtið ef Píratar myndu ekki bregðast einhvern veginn við. Þetta er rosalega skrýtið ástand,“ segir Lenya.

Hún segir stuðninginn undanfarna klukkutíma mikilvægan. „Stuðningurinn sem ég er búin að fá í dag - bæði þegar ég var inni og þegar ég var dottin út - er bara algjörlega ómetanlegur og þetta er það sem er að halda mér gangandi akkúrat núna,“ segir Lenya.

„Ég held að þetta sýni líka ágætis vilja einhvers hluta þjóðarinnar um að þau vilji hafa einhvern eins og mig inni á þingi,“ segir hún.