„Þetta er mjög óheppilegt“

26.09.2021 - 19:22
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, telur ekki ástæðu til þess að endurtelja atkvæði á landsvísu eftir að í ljós kom misræmi í atkvæðum eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi síðdegis.

Eftir endurtalningu verða 33 karlmenn á þingi og 30 konur, en eftir lokatölur í morgun voru konur í meirihluta.

„Þetta er mjög óheppilegt. Það er miður að við getum ekki haldið þessu meti en huggun harmi gegn er að þó hlutur kvenna hafi farið úr 52% í 48% þá er það samt sem áður nýtt Íslandsmet og nýtt Evrópumet,“ segir Ólafur.

Heimspressan hafði gert mikið úr því að Ísland væri með fyrsta kvenmeirihlutann á þingi í Evrópu.

„Það er leiðinlegt en ekkert við því að gera. Það geta alltaf orðið mistök í talningu, ég veit ekki hvað gerðist en mannleg mistök eiga sér alltaf stað við og við.“

Finnst þér að þetta kalli á að það þurfi að telja alls staðar aftur?

„Ég held það sé ekki ástæða til þess en mér finnst eðlilegt að landskjörstjórn kíki á þetta í Norðvestur.“

Aðspurður um hver stóra fréttin er eftir þessar kosningar segir hann:

„Stóra fréttin er hlutur kvenna, þó það hefði verið enn meiri frétt ef það hefði farið yfir 52%“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði.