Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Það var annaðhvort nú eða aldrei, segir Tommi

Mynd: Anna Lilja Þórisdóttir / Ljósmynd
Allir flokkar á þingi fá nú inn nýja þingmenn nema Miðflokkurinn, en af þeim 63 sem náðu kjöri til Alþingis í gær eru 27 nýliðar. Sá elsti í hópnum er á áttræðisaldri og vill meðal annars berjast fyrir bættum kjörum námsmanna. 

Framsóknarflokkurinn á flesta nýja þingmenn, sjö. Þrír nýir þingmenn taka sæti fyrir Viðreisn en Miðflokkurinn fær engan nýjan þingmann, einn flokka. Hjá Samfylkingu taka þrír nýir þingmenn sæti og tveir hjá Pírötum.

Hjá Sjálfstæðisflokki, Vinstri grænum og Flokki fólksins koma inn fjórir nýir þingmenn frá hverjum. Og Flokkur fólksins á elsta nýkjörna þingmann Íslandssögunnar, Tómas A. Tómasson.

„Ég er búinn að hafa það á stefnuskrá síðan 1978 að fara á Alþingi, en ég var ekki tilbúinn fyrr en núna. Og svo fattaði ég allt í einu að ég var orðinn eldri borgari, 72 ára og ég átti eitt skot í byssunni. Svo ég ákvað: nú er málið, annaðhvort nú eða aldrei,“ segir Tómas.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir er nýkjörinn þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.

„Það er mjög mikilvægt að það séu ungir aðilar á þingi því að Alþingi þarf að endurspegla þjóðina og því er mjög mikilvægt að þar séu allir aldurshópar,“ segir Lilja Rannveig.

Annar nýkjörinn þingmaður er Berglind Ósk Guðmundsdóttir Sjálfstæðisflokki, en hún er 6. þingmaður Norðausturkjördæmis. „Ég ætla að vera ákveðin og berjast fyrir málefnum kjördæmis míns,“ segir Berglind Ósk.

Og nýju þingmennirnir eru með langan lista af málum sem þeir vilja koma á dagskrá Alþingis:

„Ég er eldri borgari, ég er einn í hópnum, þetta er mitt lið. Og það er okkar stefna að bæta hag eldri borgara og þeirra sem minna mega sín,“ segir Tómas.

„Ég held það sé mjög mikilvægt að vekja athygli á málum unga fólksins, sérstaklega hérna úti á landsbyggðinni, mér hefur þótt vanta kraft í það, til dæmis húsnæðismál ungra,“ segir Berglind Ósk.

„Ætli það verði ekki bara að byrja á öllum þessum stóru málum, kerfisbreytingunum sem við þurfum að fara í,“ segir Lilja Rannveig. „Það þarf að fara strax í þau til að klára þau fyrir lok kjörtímabilsins.“

„Mér er mikið hjartans mál að stúdentar sem eru á námslánum geti unnið ótakmarkað með sínu námi án þess að það sé verið að skerða námslánin. Og jafnvel hækka námslánin að auki,“ segir Tómas.

Og nýju þingmennirnir hlakka til að setjast á þing:

„Þetta leit bara nokkuð vel út í skoðanakönnunum og svo þegar fyrstu tölur komu þá var ánægjulegt að sjá að ég yrði nokkuð örugg inni,“ segir Berglind Ósk. 

„Það skiptir mestu að hafa bara gaman af þessu, ekki taka þetta of alvarlega. Svo er ein setning sem ég elska: Rúnar Júlíusson sem var aðalmaðurinn í Hljómum í gamla daga - hann hafði þessa setningu alltaf á hreinu: Eru ekki allir í stuði? Og það er bara málið sko,“ segir Tómas.

Sérðu fyrir þér að standa í pontu Alþingis og kalla það? „Já, þess vegna. Ég held að ég verði alveg ófeiminn við að gera það.“