Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Telur þá þurfa meira á Katrínu að halda en öfugt

26.09.2021 - 14:42
Mynd: RÚV / RÚV
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, eiga meira undir Katrínu Jakobsdóttur í komandi stjórnarmyndunarviðræðum en hún undir þeim. Þetta segir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor. Hann segir viðbúið að Katrín verði áfram forsætisráðherra.

„Það er enginn annar valkostur sem maður sér sem er jafn augljós og sá að ríkisstjórnin haldi einfaldlega áfram. Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn, Framsóknarmenn vinna mest á en samt sem áður er hinn pólítíski raunveruleiki í landinu sá að sá formaður þessara þriggja flokka sem mest trausts nýtur meðal þjóðarinnar er Katrín Jakobsdóttir.“

Eiríkur telur ekki vænlegt fyrir ríkisstjórnarsamstarfið að hrókera í stóli forsætisráðherra. Í raun sé nauðsynlegt fyrir samstarfið að Katrín sitji þar áfram.

„Ég er ekki alveg sannfærður um það að ríkisstjórn þessara þriggja, undir forystu annars formanns heldur en hennar, myndi njóta viðlíka hylli. Þá er staðan eiginlega sú að Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson eiga meira undir Katrínu Jakobsdóttur í komandi stjórnarmyndunarviðræðum heldur en hún á undir þeim,“ segir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor.