Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lokatölur: Ríkisstjórnin heldur velli með 37 þingmenn

26.09.2021 - 09:27
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Lokatölur í alþingiskosningunum voru ljósar skömmu eftir klukkan níu, þegar Norðausturkjördæmi skilaði lokatölum sínum. Ríkisstjórnin rígheldur meirihluta sínum og hlýtur 37 þingmenn. Í fyrsta sinn í Íslandssögunni náðu fleiri konur kjöri en karlar. 33 konur náðu kjöri og 30 karlar.

Framsóknarflokkurinn er ótvíræður sigurvegari kosninganna. Flokkurinn hlýtur 13 þingmenn og bætir við sig fimm þingmönnum frá síðasta kjörtímabili. Alls náði flokkurinn 17,3% fylgi.

Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar áfram stærsti flokkurinn á þingi, með 16 þingmenn. Flokkurinn hlaut 24,4% fylgi.

Vinstrihreyfingin-grænt framboð hlaut 12,6% atkvæða og hlaut átta þingmenn og missir þrjá frá síðustu kosningum, en missir í raun einn þar sem tveir þingmenn gengu úr flokknum á síðasta kjörtímabili.

Samanlagt fá ríkisstjórnarflokkarnir því 37 þingmenn. Forystumenn flokkanna þriggja lýstu því yfir fyrir kosningarnar að ef ríkisstjórnin héldi velli yrði það fyrsti kostur að ræða áframhaldandi stjórnarsamstarf.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lokatölur.

Flokkur fólksins fær sex þingmenn og bætir við sig tveimur frá síðustu kosningum. Þó má segja að flokkurinn bæti við sig fjórum mönnum, því tveir þingmenn voru reknir úr flokknum á síðasta kjörtímabili og gengu í aðra flokka.

Viðreisn bætir við sig einum þingmanni, fer úr fjórum í fimm. Píratar fá sex þingmenn og Samfylkingin einnig. Miðflokkurinn tapar fjórum þingmönnum, fer úr sjö í þrjá.

Sósíalistaflokkur Íslands, sem mældist inni í flestum könnunum þegar líða tók að kosningum, náði ekki manni inn á þing með um 4% atkvæða. 

Í fyrsta sinn í Íslandssögunni verða fleiri konur en karlar á þingi. 33 konur náðu kjöri en 30 karlar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fleiri konur en karlar á þingi.

Í fyrsta sinn í Íslandssögunni verða fleiri konur en karlar á þingi. 33 konur náðu kjöri en 30 karlar.