Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Heyrðu fyrst af endurtalningu atkvæða í fjölmiðlum

26.09.2021 - 18:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi gagnrýnir harðlega framkvæmd talningu atkvæða, og endurtalningu, sem leiddi í ljós misræmi í atkvæðavægi milli flokka. Það gerir það að verkum að hræringar verða á jöfnunarmönnum þingflokka á milli kjördæma, þó þingstyrkurinn haldi sér.

Misræmi var í atkvæðum allra flokka miðað við lokatölur sem birtar voru í morgun. Það á einnig við um fjölda auðra og ógildra seðla.

Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata og umboðsmaður listans í kjördæminu, segist hafa lesið það fyrst í fjölmiðlum að endurtalning atkvæða væri hafin í Norðvesturkjördæmi. Hann hafði þá samband við formann yfirkjörstjórnar og óskaði eftir því að beðið yrði með endurtalningu þar til hann, sem umboðsmaður listans, væri kominn á staðinn.

Magnús Davíð segir að formaður yfirkjörstjórnar hafi viðurkennt þau mistök, og talið að einhver annar væri umboðsmaður fyrir lista Pírata. 

„En það liggur fyrir skriflega að efstu tveir á lista eru umboðsmenn hans og það var aldrei haft samband við okkur. Við sáum þetta fyrst í fjölmiðlum.“

Þá gagnrýnir Magnús Davíð einnig hvernig gengið var frá kjörgögnum eftir að talningu atkvæða lauk í morgun. Þau hafi ekki verið innsigluð og ekki gætt nægilega vel. Þau hafi verið skilin eftir á hóteli í Borgarnesi og talningafólk farið heim. Davíð segist ekki vita hver eða hverjir gættu atkvæðanna.

„Ég tel að þarna séu alvarlegir ágallar á framkvæmd talningar atkvæða í Norðvesturkjördæmi,“ segir Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV