Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Framsókn í sókn og 25 nýir þingmenn

26.09.2021 - 03:53
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Framsóknarflokkurinn hefur bætt við sig rúmlega sjö prósentum og fimm þingmönnum frá síðustu kosningum þegar búið er að telja 106 þúsund atkvæði. Stjórnarflokkarnir eru nú með 38 þingsæti en höfðu á tímabili 41 þingsæti fyrr í nótt. 25 nýir þingmenn taka sæti á Alþingi eins og staðan er núna. Sjö sitjandi þingmenn sem voru ofarlega á listum falla af þingi að óbreyttu.

Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr stærsti flokkur landsins með 23,6 prósent atkvæða og sextán þingmenn. Samkvæmt því minnkar fylgi flokksins um 1,7 prósent milli kosninga en þingmannafjöldinn stendur í stað.

Framsóknarflokkurinn er með 17,8 prósent og þrettán þingsæti en hafði 10,7 prósent og átta þingmenn. Vinstri græn fara úr 16,9 prósentum í 13,9 prósent og ellefu þingmönnum í níu.

Samfylkingin fær 10,3 prósent og sex þingsæti en hafði 12,1 prósent og sjö þingsæti eftir síðustu kosningar. Flokkur fólksins fer úr 6,9 prósentum og fjórum þingmönnum eftir síðustu kosningar í 9,4 prósent og sex þingmenn. Viðreisn og Píratar fá sitthvora fimm þingmennina. Viðreisn bætir við sig einu prósentustigi og einum þingmanni en Píratar tapa einu prósenti og einu þingsæti.

Miðflokkurinn var dottinn út af þingi samkvæmt fyrstu tölum en þegar á leið komst formaðurinn inn sem kjördæmakjörinn þingmaður og upp úr tvö komst flokkurinn yfir fimm prósenta markið sem gefur jöfnunarsæti. Nú er hann með fimm prósent og þrjú þingsæti en fékk 10,9 prósent og sjö þingsæti fyrir fjórum árum.

Nýju flokkarnir komast ekki á þing eins og staðan er núna. Sósíalistaflokkur Íslands er með 3,8 prósent, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn 0,3 prósent og Ábyrg framtíð 0,1 prósent.

Sjö fallnir - að svo stöddu

Sjö þingmenn sem skipa sæti ofarlega á listum sinna flokka ná ekki inn á þing samkvæmt nýjustu tölum.

Bergþór Ólason Miðflokki og Lilja Rafney Magnúsdóttir Vinstri-grænum falla af þingi í Norðvesturkjördæmi. Í Suðvesturkjördæmi falla Ólafur Þór Gunnarsson Vinstri-grænum, Guðmundur Andri Thorsson Samfylkingunni og Karl Gauti Hjaltason Miðflokki af þingi eins og staðan er núna.

Birgir Ármannsson Sjálfstæðisflokki er úti í Reykjavík suður eins og staðan er núna og Jón Steindór Valdimarsson Viðreisn nær ekki á þing í Reykjavík norður að svo stöddu.

Fjöldi nýliða tekur sæti á þingi, 25 eins og staðan er núna. Það eru Stefán Vagn Stefánsson (B), Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (B), Bjarni Jónsson (V), Eyjólfur Ármannsson (F) og Guðmundur Gunnarsson (C) í Norðvesturkjördæmi, Ingibjörg Ólöf Isaksen (B), Jakob Frímann Magnússon (F), Berglind Ósk Guðmundsdóttir (D), Þórarinn Ingi Pétursson (B) og Einar Aðalsteinn Brynjólfsson (P) í Norðausturkjördæmi. 

Í Suðurkjördæmi eru Guðrún Hafsteinsdóttir (D), Ásthildur Lóa Þórsdóttir (F), Jóhann friðrik Friðriksson (B), Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (B) og Hólmfríður Árnadóttir (V) kosin í fyrsta sinn á þing. Guðmundur Ingi Guðbrandsson (V), Þórunn Sveinbjarnardóttir (S), Ágúst Bjarni Garðarsson (B), Una Hildardóttir (V) og Sigmar Guðmundsson (C) eru nýir þingmenn Suðvesturkjördæmis. 

Kristrún Mjöll Frostadóttir (S), Hildur Sverrisdóttir (D), Orri Páll Jóhannsson (V) og Fjóla Hrund Björnsdóttir (M) eru nýir þingmenn í Reykjavík suður og í Reykjavík norður voru kosin ný á þing þau Dilja Mist Einarsdóttir (D) og Tómas Andrés Tómasson (F).

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV