Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Finnst skýringar yfirkjörstjórnar ekki halda vatni

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónssson - RÚV
Guðmundur Gunnarsson, oddviti framboðslista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi segir greinilegt það þurfi að kanna betur hverskyns mistök hafi orðið í talningu atkvæða í hans kjördæmi. Samkvæmt niðurstöðum kosninganna, eins og þær voru tilkynntar í morgun, var Guðmundur inni á þingi sem jöfnunarþingmaður, en eftir endurtalningu í dag kemst hann ekki á þing.

„Þetta er náttúrulega ótrúlegt að upplifa þetta sem nýliði í þessu“ segir Guðmundur. „Við vorum viðstödd þarna þegar úrslitin voru kunngjörð eftir endurtalningu. Þá kemur í ljós að þessi hringekja jöfnunarþingmanna fer að stað með þessum afleiðingum sem við höfum séð“.

Skýra ekki hvers vegna fjöldi atkvæða stemmdi ekki

„Við erum að fara yfir þetta“ segir Guðmundur. „Þessar skýringar sem eru gefnar vekja upp spurningar, það er að einhver fjöldi atkvæða hafi farið með Viðreisnar atkvæðum sem hafi átt að fara með Sjálfstæðisflokks atkvæðum. Sú skýring heldur í rauninni ekki vatni þegar við lítum til þess að heildarfjöldi atkvæða hefur líka breyst“.

Guðmundur segir að vitanlega muni bæði hann og hans flokkur virða þá niðurstöðu sem verði og hann segist gleðjast fyrir félaga sinn í þingflokknum sem nú er kominn inn á þing, Guðbrand Einarsson.

„Sú staðreynd að við séum ekki að skrifa á spjöld sögunnar þennan meirihluta kvenna, sem mér sem Íslendingi þótti mjög spennandi og fáum í staðinn inn einn af aðalleikurunum úr Klaustursmálinu, það er náttúrulega hápunktur kaldhæðninnar“ segir Guðmundur.

Hann segist þrátt fyrir allt vera gífurlega stoltur af framgöngu síns flokks og eigin gengi. „Ég hef lagt allt mitt í þetta, allt mitt hjarta, sál og sparifé“.

Réttlætismál að jafna vægi atkvæða

Spurður hvort honum finnist þetta útspil undirstrika galla í kosningakerfinu segir Guðmundur það engan vafa.

„Það er réttlætismál að jafna vægi atkvæða og einfalda kosningakerfið. Þetta hlýtur að ýta okkur allavega í þá átt að sjá að við ráðum ekki við þessar flækjur, við erum að gera þetta allt of flókið fyrir okkur. Ég vona þetta veki okkur aðeins“ segir Guðmundur.