Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Endurtalning: Konur ekki lengur í meirihluta

26.09.2021 - 18:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Endurtalning í Norðvesturkjördæmi hefur leitt í ljós misræmi í talningu atkvæða, en síðdegis var ákveðið að telja þar aftur vegna þess hversu lítill munur var á jöfnunarþingmönnum milli kjördæma.

Þetta þýðir hræringar á jöfnunarmönnum þingflokka, þótt þingstyrkurinn haldi sér. Hjá Samfylkingu kemur Jóhann Páll Jóhannsson inn og Rósa Björk Brynjólfsdóttir dettur úr í staðinn. Hjá Pírötum nær Gísli Rafn Ólafsson á þing, en Lenya Rún Taha Karim, sem fyrr í dag var sögð yngsti kjörni þingmaður Íslandssögunnar, dettur út.

Hjá Viðreisn nær Guðbrandur Einarsson kjöri en Guðmundur Gunnarsson ekki. Hjá Miðflokknum kemur Bergþór Ólason inn á kostnað Karls Gauta Hjaltasonar og hjá Vinstri grænum kemur Orri Páll Jóhannsson inn í stað Hólmfríðar Árnadóttur.

Útlit var fyrir að konur yrðu í fyrsta sinn í meirihluta á Alþingi, og á nokkru þingi í Evrópu, en það breytist nú. Eftir endurtalningu verða 33 karlmenn á þingi og 30 konur.

Tölur eftir endurtalningu: 
Framsóknarflokkur - 4.448 atkvæði
Viðreisn - 1.063 atkvæði
Sjálfstæðisflokkur - 3.897 atkvæði
Flokkur fólksins -  1.510 atkvæði
Sósíalistaflokkur Íslands - 728 atkvæði
Miðflokkur - 1.278 atkvæði
Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn - 73 atkvæði
Píratar - 1.081 atkvæði
Samfylking - 1.195 atkvæði
Vinstri græn - 1.978 atkvæði

Aðeins munaði tíu atkvæðum á milli Pírata og Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi. Viðreisn fékk inn jöfnunarþingmann í kjördæminu, en aðeins munaði örfáum atkvæðum á því hvar þeirra jöfnunarmaður myndi lenda. Vegna þess hversu mjótt var á munum var ákveðið að telja aftur.