Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ánægjulegt að vera ekki lengur yngsti þingmaðurinn

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Jóhanna María Sigmundsdóttir sat á Alþingi frá 2013 til 2016 fyrir Framsóknarflokkinn og var þá yngsti Alþingmaður sögunnar. Það breyttist hins vegar í morgun, þegar hin 21 árs gamla Lenya Rún Taha Karim náði inn á þing fyrir Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður. Spurð hvort Jóhönnu finnist missir af titlinum „yngsti þingmaður Íslandssögunnar“ segir hún það af og frá, hún gleðjist frekar yfir áhuga ungs fólks á stjórnmálum.

„Mér finnst bara mjög ánægjulegt að það sé enþá og áfram verið að treysta ungu fólki til þess að taka þátt í starfi Alþingis“ segir Jóhanna.

Hvernig var þetta á sínum tíma fyrir þig, að koma svona ung inn á þing?

„Þetta var rosalegur skóli og mikil lífsreynsla sem ég bý enn að í dag“ segir Jóhanna glöð. „Þetta var bara skóli á hverjum degi“.

Hvaða ráð myndir þú gefa ungu fólki sem er að fara á þing í fyrsta sinn?

„Ég myndi ráðleggja þeim að vinna ötullega að sínum málum, vera trú sínum þingmannaeið og vinna eftir eigin sannfæringu“ segir Jóhanna. Hún ítrekar einnig að þau verði óhrædd við að biðja um aðstoð ef þess þarf og séu opin fyrir samvinnu þvert á flokka.