Smit í fjórum grunnskólum í Árbæjarhverfi

25.09.2021 - 16:17
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
COVID-19 smit hafa greinst í fjórum grunnskólum í Árbæjarhverfinu og nágrenni í Reykjavík og stór hópur er í sóttkví. Börnin sem eru smituð eru flest í þriðja og fjórða bekk. Helgi Grímsson er sviðsstjóri skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

„Þetta er smit sem tengist helst 3 og 4.bekk. það er smit í öllum skólunum í Árbænum og uppi í Norðlingaskóla svo þetta er líka Selásskóli, Árbæjarskóli og Ártúnsskóli. Það er búið í standa í ströngu við að rekja smitin og stór hópur sem er í sóttkví vegna þessa.“ segir Helgi.

Helgi segist ekki hafa upplýsingar um hversu mörg börn séu smituð eða í sóttkví eða hvort að þau sé með mikil einkenni. Smitin eru rakin til fjölskyldutengsla og einnig til þátttöku í íþróttastarfi. Smitin hafa greinst undanfarna daga en hann segir að smitrakningarteymið telji sig vera búið að ná utan um umfang smitanna.

Fylgst er grannt með framþróuninni í hverfinu. Börnin eru ekki bólusett, enda flest í þriðja og fjórða bekk.  Smitin gætu raskað skólastarfi næstu daga, þó að ekki standi til að loka skólum. 

„Þetta segir og okkur og er svo mikil áminning að sá einstaki hópur íslendingar sem er í einangrun eru börn á aldrinum 6-12 ára. Það eru 94 börn á þessum aldri sem er í einangrun á Íslandi í dag. Svo eru hundruðir af félögum þeirra og starfsmenn í skóla og frístundastarfi sem eru í sóttkví út af þessu og þess vegna megum við ekkert sofna á verðinum, þetta er ekkert búið.“ segir Helgi.

Samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum voru smittölur gærdagsins svipaðar og seinustu daga, eða um 30 smit. Um helgar eru ekki birtar nákvæmar smittölur.