Sameining á Suðurlandi felld

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íbúar í sveitarfélaginu Ásahreppi kolfelldu í dag tillögu um sameiningu sveitarfélagsins við fjögur önnur sveitarfélög á Suðurlandi.

Þar með er ljóst að ekkert verður af sameiningu sveitarfélaganna, í það minnsta í bili, en meirihluta þurfti í öllum sveitarfélögum til að af henni yrði.

Alls greiddu 27 manns atkvæði með sameiningartillögunni en 101 atkvæði gegn, en aðeins voru 159 á kjörskrá.

Íbúar Skaftárhrepps voru hrifnari af sameiningu, þar sem um 75 prósent voru hlynntir sameiningu en fjórðungur á móti. Á kjörskrá voru 370 og greiddu 277 atkvæði.

Úrslit sameiningakosninganna í Mýrdalshreppi voru eftirfarandi:  Þar var sameining samþykkt með naumum meirihluta, 52 prósentum atkvæða. 
Já sögðu 133 en nei sögðu 122. Á kjörskrá voru 370 og greiddu 210 atkvæði á kjörstað en 52 utan kjörfundar. Samtals 262 atkvæði eða 70,81%. 

51 prósent þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni í Rangárþingi ytra samþykktu tillögu um sameiningu. Á kjörskrá voru 1.247 atkvæði; greiddu 910 eða 73 prósent.  Já sögðu 453, nei sögðu 435, auðir og ógildir voru 22.

 

Tillaga um sameiningu Ásahrepps, Rangárþings ytra, Rangárþings eystra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps var samþykkt í Rangárþingi eystra me 52 prósentum atkvæða. 1.306 voru á kjörskrá og greiddu 977 atkvæði. Já sögðu 498 (52%), nei sögðu 455 (48%). Auðir og ógildir 24

Tillagan var því samþykkt í fjórum af fimm sveitarfélögum sem tillagan varðaði. Aðeins í Ásahreppi var sameiningu hafnað af meirihluta íbúa.  Sveitarstjórnirnar fimm höfðu gefið það út fyrir kosningar, að heimild til að sameina þau sveitarfélög þar sem sameining er samþykkt þótt henni sé hafnað í einhverju sveitarfélaganna sem tillagan varðar, verði ekki nýtt.

 

Íbúar í sveitarfélögunum greiddu atkvæði um sameiningartillöguna samhliða alþingiskosningum.  

 

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV