Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Óskarsverðlaunahafi vill taka þátt í Söngvakeppninni

Mynd: GH / RÚV

Óskarsverðlaunahafi vill taka þátt í Söngvakeppninni

25.09.2021 - 08:31

Höfundar

Tónlistarkonan Markéta Irglová náði ung undraverðum árangri á tónlistarsviðinu. Fimmtán ára gömul ferðaðist hún um heiminn og spilaði á tónleikum og tvítug fékk hún Óskarsverðlaun. Hún hefur stofnað fjölskyldu hér á Íslandi og hefur hug á að taka þátt í Eurovision fyrir Íslands hönd.

Markéta Irglová hefur búið á Íslandi í tæplega áratug. Hún kom hingað til að taka upp plötu, ætlaði að dvelja hér um skamman tíma, en eins og vill gerast varð hún ástfangin. „Ástin byggir fleiri brýr en allt annað í lífinu. Ég kom hingað til að taka upp plötu og fara svo aftur til New York, þar sem ég bjó á þessum tíma,“ segir hún. Svo hafa tvær vikur orðið að níu árum og í fyrra fékk hún íslenskan ríkisborgararétt.

„Það er pínu þannig hjá mér, þegar ég reyni að plana eitthvað er mér sýnt að ég hafi ekki stjórn á neinu,“ segir Markéta í samtali við Gunnar Hansson í Mannlega þættinum á Rás 1. „Þannig að ég hef lært allt mitt líf að vera bara í flæðinu og vera til í að láta koma mér á óvart og það koma yfirleitt frábærir hlutir úr því, þannig að ég kvarta ekki.“ 

Hvött til að nýta tækifærin

Markéta er fædd í Tékkóslóvakíu, í bænum Valmez, áður en landið skiptist í Tékkland og Slóvakíu. „Mamma og pabbi ólust upp við kommúnisma en sem betur fer breyttist það eftir að ég ég fæddist. Ég hefði ekki getað ferðast eins og ég gerði, búið í útlöndum og lært. Mamma og pabbi höfðu ekki það frelsi. Þau þurftu leyfi til að fara úr landi og það var tónlist sem mátti ekki hlusta á og það þurfti að smygla inn bönnuðum bókum, sem mamma og pabbi gerðu. Lífið var allt öðruvísi. Þau hvöttu mig mikið, því þau fengu ekki tækifærin sem ég fékk. Þannig að þau voru mjög skilningsrík þegar kom að þeim tíma þegar ég var 15 ára að spila á tónleikum í Bandaríkjunum.“

Yfirþyrmandi lífsreynsla í Hollywood

Markéta kynntist tónlistarmanninum Glen Hansard þegar hann spilaði á tónlistarhátíð í Tékklandi þegar hún var 13 ára. Síðar stofnuðu þau hljómsveitina The Swell Season og léku saman í kvikmyndinni Once, sem þau sömdu einnig tónlist fyrir, þar á meðal lagið Falling Slowly sem þau hlutu Óskarsverðlaun fyrir árið 2008. Þá var Markéta aðeins tvítug.

Það vakti athygli þegar Markéta og Glen tóku á móti verðlaununum. Markéta fékk ekki tækifæri til að þakka fyrir sig í fyrstu, en var svo boðið aftur upp á svið til að flytja ræðu. Hún lýsir því sem yfirþyrmandi lífsreynslu.

„Það var há orka í salnum yfirhöfuð. Það er svo mikil gleði og von og spenna í loftinu. Jafnvel fyrir stærstu Hollywood-stjörnur er þetta stærsta kvöldið og stærsta partí ársins. Að taka þátt í því yfir höfuð er magnað. Okkur fannst við eiginlega hafa unnið með því að geta spilað lagið okkar á þessu sviði, fyrir framan fólkið og í sjónvarpinu. Að heyra nöfn okkar kölluð, ég fór bara úr líkama mínum og sálin mín var fljótandi fyrir ofan mig. Þetta er svo rosalega mikil víma og tilfinningarnar svo stórar. Ég hef kannski komið nálægt því þegar börnin mín fæddust, þegar maður er svo fullur af ást og svo mikið í núinu. Það kemur kannski nálægt því, en er samt svo öðruvísi.“

Lítil mynd með stórt hjarta

Markéta segist hafa orðið vör við að fólk hafi misskilið það þegar hún flutti ræðuna á sviðinu og talið að hún hefði verið undirbúin. „Ég hafði ekki undirbúið neitt. Ég ætlaði bara að segja takk og labba svo í burtu. En svo buðu þau mér aftur á sviðið til að segja nokkur orð. Ég get sagt það núna að ég er þakklát fyrir að hafa getað sagt eitthvað sem glóra var í. Hjartað var alveg á fullu og það er svo mikið sem maður vill segja og svo stuttur tími. Ég mun aldrei gleyma þessu kvöldi og þvílík forréttindi að upplifa þetta.“

Myndin var gerð fyrir lítinn pening en sló í gegn og rakaði inn margföldum framleiðslukostnaði. „Ég held að það sem hafi hjálpað myndinni var að fyrir fólki var þetta best geymda leyndarmálið,“ segir Markéta. Myndin hafi fengið gott umtal, sem varð til þess að hún blómstraði með þessum hætti. „Öllum fannst eins og þeir ættu eitthvað í myndinni.“

Búin að semja lag fyrir Söngvakeppnina

Næstu árin tóku við mikil ferðalög og spilamennska í leikhúsum og tónlistarhöllum. „Síðan kom tími þar sem við Glen fórum í sitt hvora áttina. Mér hafði alltaf liðið þannig að það sem ég var að upplifa gæti verið búið á morgun.“

 

Mynd: Klassíkin okkar / RÚV
Markéta samdi titillag leiksýningarinnar Vertu úlfur ásamt Emilíönu Torrini. Saman fluttu þær lagið í Klassíkinni okkar á RÚV.

Síðan hefur hægst aðeins á, hún hefur stofnað fjölskyldu hér á Íslandi og ferðalögunum fækkað, en síðustu ár hefur hún unnið að eigin tónlist og samið fyrir leiksýningar og söngleiki. Nú síðast samdi hún titillagið í sýningunni Vertu úlfur með Emilíönu Torrini. „Núna langar mig svo mikið að taka þátt í Söngvakeppninni. Ég er meira að segja búin að semja lag og allt,“ segir hún. Svo það er aldrei að vita nema að fulltrúi Íslands í Eurovision verði með Óskarsstyttu í farteskinu.

Markéta Irglová var föstudagsgestur Mannlega þáttarins á Rás 1.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Maður á ekki að vera hræddur við geðveikina“

Popptónlist

Fékk Óskarinn tvítug og býr nú á Íslandi