Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Kaþólskir biskupar biðja frumbyggja Kanada afsökunar

25.09.2021 - 06:58
epa09236282 A handout photo made available by the National Centre for Truth and Reconciliation at the University of Manitoba reportedly shows children at the Kamloops Indian Residential School in Kamloops, British Columbia, Canada, in 1931 (issued on 29 May 2021). According to a statement issued by Chief Rosanne Casimir of the Tk'emlups te Secwépemc First Nation on 27 May 2021 a mass grave has been located at the site of the school that contains the bodies of 215 children whose deaths went undocumented. The school operated from 1890 through 1978 as a place to force youth from indigenous tribes into giving up their language and culture.  EPA-EFE/NATIONAL CENTER FOR TRUTH AND RECONCILIATION / HANDOUT BEST QUALITY AVAILABLE HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA
Kaþólska kirkjan í Kanada baðst í gær fortakslausrar afsökunar á aldarlöngu ofbeldi og vanrækslu gagnvart Kanadamönnum af ættum frumbyggja í skólum kirkjunnar. Skólarnir voru stofnaðir af stjórnvöldum og margir hverjir í umsjón kaþólsku kirkjunnar.

Afsökunarbeiðnin kemur í kjölfar þess að mörg hundruð ómerktar grafir hafa fundist við heimavistarskólana víða í Kanada. Börnin í skólunum voru tekin frá foreldrum sínum, og var hugmynd yfirvalda að færa þau nær menningu hvítu þjóðanna sem námu land síðar í Kanada. Alls voru um 150 þúsund börn af hinum ýmsu þjóðum send í skólana, allt frá lokum nítjándu aldar langt fram á þá tuttugustu. Skólarnir voru 139 talsins. 

Leiðtogar frumbyggjaþjóða í Kanada tóku við afsökunarbeiðninni, en bíða þess enn að fá formlega afsökunarbeiðni frá páfanum sjálfum, yfirboðara kaþólsku kirkjunnar.

Innan við vika er þar til fyrsti dagur sannleika og sátta í Kanada verður haldinn, til minningar um meðferð stjórnvalda og yfirvalda á frumbyggjum Kanada. 30. september verður helgaður þeirri minningu á ári hverju hér eftir að sögn AFP fréttastofunnar.

Nefnd sem sett var á laggirnar til þess að rannsaka sögu heimavistarskólanna sagði stefnu stjórnvalda á sínum tíma hafa jafnast á við menningarlegt þjóðarmorð. Skólarnir eiga sinn þátt í hárri tíðni fátæktar, áfengissýki og heimilisofbeldis meðal frumbyggjaþjóða, auk hárrar sjálfsvígstíðni. 

Alls hafa um 1.200 ómerktar grafir fundist við nokkra skóla í fylkjunum Bresku Kólumbíu og Saskatchewan. Leit er hafin við fleiri skóla, og vinna þjóðirnar að því að safna gögnum sem gætu hjálpað til við að bera kennsl á þau sem liggja í ómerktu gröfunum. Biskupanefnd kaþólsku kirkjunnar í Kanada sagðist í afsökunarbeiðni sinni staðráðin í að aðstoða þjóðirnar við upplýsingaöflun.