Harðasti matargagnrýnandinn mælir með þessu í kvöld

Mynd: RÚV / RÚV

Harðasti matargagnrýnandinn mælir með þessu í kvöld

25.09.2021 - 10:32

Höfundar

Katrín Guðrún Tryggvadóttir kann ekki að meta allan mat, en hún mælir með margaritu, pepsi og lakkrís í kosningavökuna. Hún hefur sýnt það í þáttunum Með okkar augum að hún lætur ekki bjóða sér hvað sem er, en veit nákvæmlega hvað á að hafa á borðum þegar góða veislu gjöra skal.

Kjörstaðir hafa opnað dyr sínar fyrir kjósendum verða opnir til tíu í kvöld. Þá gefst tækifæri til að kjósa til alþingis og allt bendir til þess að kosningarnar verði afar spennandi í ár. Margir klæða sig upp fyrir tilefnið og halda kosningavöku í kvöld til að fylgjast með tölunum í góðra vina hópi. Þá safnast fólk saman, glápir á sjónvarp og vinsælt er að háma eitthvað í sig á meðan. Síðdegisútvarpið ræddi við Katrínu Guðrúnu Tryggvadóttur, matargagnrýnanda þáttarins Með okkar augum, og fengu hana til að ljóstra því upp hvað hún býður upp á þegar hún heldur góða veislu. Hún er einn harðasti matargagnrýnandi landsins og veit alveg hvað hún vill.

Katrín viðurkennir sjálf að vera mikill gikkur þegar kemur að mat og drykk og hún er ekki viss um að horfa á kosningasjónvarpið í kvöld því hún fer venjulega snemma að sofa. En hún gerir sér oft glaðan dag með mat og sælgæti og það er hefð hjá henni að fá sér mjólkursúkkaði á laugardögum. Uppáhalds maturinn hennar er svo grjónagrautur með rúsínum og kanil. „Það er lostæti,“ segir hún ákveðin. Snakk væri á borðum hjá Katrínu í kvöld ef hún byði heim, í uppáhaldi er rauður Pringles og Stjörnusnakk með paprikubragði. Lakkrís þykir henni góður í hófi, svo lengi sem ekki er pipar í honum, og hún er mikið fyrir Dominos pizzu þar sem hún pantar sér margaritu einu sinni í mánuði. Ís er líka oft á borðum og þá er það alltaf með súkkulaðibragði.

Gos þykir henni betri en bjórinn. „Ég kýs venjulega Pepsi og er ekki mikið fyrir klaka. Ef hann er lengi verður gosið bara vatnssósa.“ Hún býður upp á klakalaust Pepsi, Pepsi max, Kók og Kók light, Fanta og Kristal fyrir móður sína sem er mikið fyrir sódavatn.

Svona myndi því innkaupalistinn líta út

 • Margarita pizza frá Dominos
 • Grjónagrautur með rúsínum og kanil
 • Paprikustjörnur
 • Rauður Pringles
 • Mjólkursúkkulaði
 • Hreinn lakkrís
 • Súkkulaðiís
 • Pepsi
 • Pepsi max
 • Kók
 • Kók light
 • Fanta
 • Sódavatn
   

Rætt var við Katrínu Guðrúnu Tryggvadóttur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég held ég sé rosalega klár, en er það ekki“