Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Plastmengun ein alvarlegasta ógnin við lífríki sjávar

Mynd með færslu
 Mynd:
Plastmengun er meðal alvarlegustu ógna sem steðja að lífríki sjávar við Íslandsstrendur, er fram kemur í nýrri skýrslu umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Í skýrsluni segir að margt hafi áunnist á undanförnum áratugum í baráttunni gegn mengun hafsins, en áríðandi sé að bregðast við þessari ógn sem fyrst.

Í skýrslunni, sem er nokkuð víðtæk, er fjallað um stöðu mengunar í sjó við Ísland. Almennt er mengun við Íslandsstrendur þar talin lítil, í samanburði við önnur lönd en þó einnig bent á atriði sem þurfi að bregðast við, líkt og súrnun sjávar og plastmengun.

„Sums staðar er mengun á niðurleið, s.s. varðandi geislavirk efni og mörg þrávirk lífræn efni. Þá þróun má rekja að miklu leyti til þess að þrýst hefur verið á minnkun losunar á þessum efnum, m.a. á grunni Stokkhólms-samningsins um hættuleg þrávirk efni og baráttu gegn losun frá kjarnorkuendurvinnslustöðvum. Nýjar ógnir við lífríki hafsins hafa hins vegar skotið upp kollinum á sama tíma„ segir í samantekt Stjórnarráðsins um skýrsluna.

Ísland tekur þátt í víðtækri vöktun á ástandi hafs sem byggir á OSPAR-samningnum, en skýrslan er samantekt á helstu niðurstöðum í þeirri vöktun. Tekur hún m.a. til þrávirkra lífrænna efna, geislavirkra efna, þungmálma, næringarefna og plasts í hafi.

Plastmengun „alvarlegt og vaxandi vandamál á heimsvísu“

„Plastmengun í hafi er alvarlegt og vaxandi vandamál á heimsvísu. Vöktun hérlendis sýnir að verulegt magn plasts rekur á strendur og að örplast finnist í sjófuglum (fýlum) og fleiri lífverum við Ísland“ segir í skýrslunni.

Í framhaldi er tekið fram að íslensk stjórnvöld hafi átt frumkvæði að því að plastmengun í hafi á norðurslóðum hafi verið tekin upp á vettvangi Norðurskautsráðsins. Enn fremur sé vilji fyrir því að að vinna að alþjóðlegu samkomulagi til að draga úr plastmengun í höfunum.

Umhverfisstofnun hefur vaktað plastmengun á ströndum Íslands síðan 2016. Það hefur því verið vitað um nokkurn tíma að plastmengun sjávar umhverfis Ísland sé vaxandi vandi bæði hér og á heimsvísu. Náttúrustofa Norðausturlands er meðal þeirra sem hafa rannsakað plastmengun hérlendis. Þeir hafa meðal annars notað sjávarfuglana fýla til þess að rannsaka mengun örplasts, með því að kryfja þá og telja magn örplasts í meltingarvegi þeirra.

Hér má sjá mynd sem sýnir magn plasts úr meltingarvegi eins fýls úr skýrslu frá árinu 2020:

Rusl hefur verið rannsakað síðastliðin fimm ár á sex ströndum við Ísland, það er í Surtsey, á Seltjarnarnesi, Rauðasandi, Hornströndum og Skagaströnd. Lang mest rusl hefur fundist á Seltjarnarnesi og virðist það aukast þó nokkuð með árunum.

Rusl á hafsbotni ekki rannsakað við Ísland

Fram kemur í skýrslunni að rusl á hafsbotni hafi ekki verið rannsakað við Ísland. Ekki kemur fram hvort standi til að gera slíkar rannsóknir, en rannsóknir víða um heim hafa sýnt að rusl finnst á miklu dýpi. Sem dæmi má nefna rannsókn þar sem rusl mengun af mannavöldum fannst á 10,928 metra dýpi í Kyrrahafi.

Mengun vegna þrávirkra lífrænna efna minnkar

Í skýrslunni kemur að auki fram að skýrar vísbendingar séu um að styrkur ýmissa mengunarefna fari minnkandi í hafinu við Ísland, þá sérstaklega þrávirk lífræn efni. Líkt og svokölluð PCB- og DDE efni, sem aðallega hafi komið til vegna mikillar notkunar skordýraeitursins DDT.

Þetta megi líklega ekki rekja til sérstakra aðgerða hérlendis, heldur fremur skýrist þetta af minni losun efnanna á heimsvísu.