Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óljóst hvenær talningu atkvæða lýkur

24.09.2021 - 12:15
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Tæplega 42,700 höfðu kosið utankjörfundar á tólfta tímanum í morgun. Fyrir fjórum árum voru utankjörfundaratkvæðin rúmlega 39 þúsund. Formenn yfirskjörstjórna kjördæmanna sex segja erfitt að spá hvenær úrslit liggja fyrir í Alþingiskosningunum á morgun.

„Það verður ekkert vandræðaveður á morgun", segir Hrafn Guðmundsson veðurfræðingur. Hann slær þó þann varnagla að sterkur norðaustan vindur blási um Vestfirði og þar gæti orðið slydda og snjókoma til fjalla.  

Gestur Jónsson formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi segir að gangi allt að óskum gerir hann ráð fyrir að ljúka talningu um 6-leytið um morguninn. „Kjördæmið er stórt og síðustu kjörkassarnir verða ekki komnir á talningarstað fyrr en klukkan að ganga fjögur. Við verðum með svipaðan fjölda að störfum á kjördag og fyrir fjórum árum."

Þórir Haraldsson formaður yfirkjörstjórnar vonast til þess að lokið verði að telja í Suðurkjördæmi á milli klukkan 6 og 7 á sunnudagsmorgun. Fjölgað hefur verið í starfsliðinu en Þórir segist vera með 50 manns í vinnu á kjördag. Í Norðvesturkjördæmi reiknar Ingi Tryggvason með því að ljúka talningu á milli klukkan 5 til 7. Samkvæmt því ættu úrslit að liggja fyrir þar fyrr en fyrir fjórum árum en þá lauk talningu klukkan 9 á sunnudagsmorgun. Formenn yfirkjörstjórna Reykjavíkurkjördæmanna treystu sér ekki til að segja til um hvenær talningu lýki í höfuðborginni.  

Huginn Freyr Þorsteinsson er formaður yfirkjörstjórnar í fjölmennasta kjördæminu, Suðvesturkjördæmi. „Það er erfitt að segja til um það hvenær við náum að ljúka talningunni en það verður örugglega komið vel inn í nóttina þegar við náum því. Mikill fjöldi utankjörfundaratkvæða kemur til með að tefja okkur því það er seinlegra að telja þau."

Huginn segir að fleira fólk verði að störfum  auk þess sem farið var vel yfir skipulag talningarinnar.  „Svo höfum við fengið aðgang að vélum sem geta opnað umslögin með utankjörfundaratkvæðunum. Þegar þau eru mörg tefur það talninguna".
 

Arnar Björnsson