Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ný könnun Gallup: Ríkisstjórnin á mikilli siglingu

24.09.2021 - 18:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkisstjórnin heldur velli og það nokkuð örugglega, samkvæmt nýrri könnun Gallup. Stjórnarflokkarnir þrír, Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og VG, mælast samanlagt með 50 prósent fylgi og fengju 35 þingmenn. Níu flokkar næðu kjöri.

Gallup-könnunin í dag er nokkurn veginn í takt við kannanir síðustu daga; að ríkisstjórnin sé að sækja í sig veðrið.

Þannig sýndi uppfærð könnun Maskínu fyrr í dag að ríkisstjórnin héldi velli þótt vissulega væri mjótt á munum og samkvæmt könnun MMR fyrir mbl.is í dag þurfti lítið að breytast í fylgi flokkanna til að stjórninni tækist að bjarga sér.

Þjóðarpúls Gallup 24. september 2021
Niðurstöður Þjóðarpúls Gallup 24. september, síðustu könnunar fyrir kosningar. Veldu kjördæmi til þess að skoða dreifingu fylgis eftir kjördæmum. Í svarta boxinu er hlutfall fylgis flokks og í hvíta boxinu er fjöldi þingmanna flokks, á landinu öllu og svo í kjördæmum.
Könnunin var gerð dagana 20.-24. september með síma- og netkönnun. Úrtakið í netkönnuninni var tilviljunarúrtak úr Viðhorfahópi Gallup og úrtakið í símakönnuninni var tilviljunarúrtak úr Þjóðskrá. Úrtaksstærð var 4.839 manns, 18 ára og eldri. Þátttökuhlutfall var 51,9%.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 23,4 prósent fylgi, Framsóknarflokkurinn mælist með 14,9 prósent fylgi  og VG er með 12,6 prósent fylgi.

Samfylkingin mælist stærst stjórnarandstöðuflokka, er með 12,6 prósent fylgi . Viðreisn mælist með 9,2 prósent fylgi  og Píratar eru með 8,8 prósent fylgi.

Miðflokkurinn mælist með 6,8 prósent fylgi,  Flokkur fólksins með 6,4 prósent fylgi og Sósíalistaflokkurinn mælist með 5,3 prósent.

Yrði þetta niðurstaðan í kosningunum á morgun myndi ríkisstjórnin halda velli og rúmlega það, fengi 35 þingmenn. Stjórnarandstöðuflokkarnir væru með 28. Leiðtogar flokkanna sem bjóða fram í þingkosningunum mætast í sjónvarpskappræðum í kvöld strax að loknum fréttum, íþróttum og veðri.

Könnun var gerð dagana 20. til 24. september. Heildarúrtaksstærð var 4.839 manns, 18 ára og eldri. Þátttökuhlutfall var 51,9 prósent. Spurt var: „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV