Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kínverski seðlabankinn bannar viðskipti með rafmyntir

24.09.2021 - 10:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Seðlabanki Kína segir í yfirlýsingu í dag að öll viðskipti með rafmyntir séu ólögleg. Þar segir að viðskipti með Bitcoin og fleiri rafmyntir hafi aukist mikið síðustu ár, þetta hafi haft áhrif á efnahagslífið en ekki síður auðveldað peningaþvætti og fjármögnun ólöglegrar starfsemi. Gengi Bitcoin lækkaði töluvert í maí þegar kínversk stjórnvöld hétu því að bregðast við, og því búist við sveiflum á genginu í dag.

Gengi Bitcoin hefur hækkað mikið undanfarin misseri en það fór í fyrsta sinn yfir fimmtíu þúsund bandaríkjadali í febrúar. Eftirlit með Bitcoin, og fleiri rafmyntum, hefur verið aukið til muna og yfirvöld í El Salvador tóku Bitcoin upp sem lögeyri um miðjan þennan mánuð. Þeirri ákvörðun stjórnvalda hefur verið mótmælt og varað við því að þessi ákvörðun geti aukið verðbólgu mjög í landinu. 

Stjórnvöld í Kína hafa aðallega áhyggjur af því hvernig glæpamenn nýti rafmyntina til að fjármagna starfsemi sína. Í júní greindu yfirvöld frá því að yfir eitt þúsund hefðu verið handtekin fyrir að kaupa rafmynt fyrir ágóða af glæpastarfsemi. Stjórnvöld í nokkrum héruðum í Kína bönnuðu í fyrra gröft eftir Bitcoin og öðrum rafmyntum og yfirvöld hafa reynt ýmsar leiðir til að stemma stigu við uppgangi myntarinnar. 

Gengi Bitcoin áður en viðskipti hófust í morgun var um 45 þúsund bandaríkjadalir, en hafði lækkað niður í rúm 42 þúsund þegar fréttin var birt.