Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Held að þetta tilboð hafi ekki farið vel í þá“

Mynd: EPA / EPA

„Held að þetta tilboð hafi ekki farið vel í þá“

24.09.2021 - 18:30
Guðmundur Guðmundsson segir að hann verði áfram landsliðsþjálfari Íslands þó að hann hafi samið við danska liðið Fredericia. Síðustu dagar hafa verið viðburðaríkir hjá Guðmundi.

Guðmundur lét af störfum sem þjálfari þýska liðsins Melsungen á mánudag eftir eins og hálfs árs starf.

„Þetta bar nú skjótt að allt saman. En það er nú þannig samt sem áður að fyrir svona þremur vikum síðan þá tilkynnti ég forráðamönnum Melsungen að ég hefði fengið mjög álitlegt tilboð frá Danmörku sem ég hygðist íhuga alvarlega,“ segir Guðmundur. 

Í kjölfarið hafi farið af stað ákveðin atburðarrás sem leiddi til þess að Guðmundur hætti svo hjá Melsungen. Hann segir úrslitin úr fyrstu leikjum tímabilsins því ekki segja alla söguna af hverju Melsungen lét hann fara.

„Nei mér finnst það nú ekki frá minni hendi en ég ætla svo sem ekkert að fara út í það. Málið er bara það hins vegar að ég kem þarna út í fyrra fyrir svona ca 18 mánuðum og ætlaði nú upphaflega bara að vera í fimm mánuði. Þá kom covid og ég stýrði liðinu í tveimur leikjum sem unnust báðir. Ég var þarna í fyrra við illan leik, aleinn og án fjölskyldunnar allan síðasta vetur. Við lentum alveg hrikalega illa í því liðið og ég gagnvart þessu covid-fári. Við vorum allt í allt í sex vikur í einangrun. Ég náði aldrei að byggja upp liðið og koma því í gírinn, þannig að þetta var mjög erfitt tímabil. Við náðum engu að síður að komast í bikarúrslitaleik. Svo er varla hægt að segja að tímabilið hafi verið byrjað þegar þessi ákvörðun var tekin.“

Guðmundur segir jafnframt að hann og forsvarsmenn Melsungen hafi haft ólíka sýn á hvað þurfi til að ná árangri. 

En verður hann landsliðsþjálfari samhliða starfinu í Danmörku?

„Já, ég verð það. Það var sett klásúla inn í samninginn hjá mér að það myndi ekki hafa nein áhrif á störf mín fyrir íslenska landsliðið. Þannig að það verður bara óbreytt.“