Hafa krafist loftslagsaðgerða 146 sinnum

Loftslagsverkfall á Austurvelli 24.9.21
 Mynd: Anna Lilja Þórisdóttir - Ljósmynd
Ungt fólk lagði niður störf og nám í hádeginu í dag til að krefjast frekari aðgerða stjórnvalda í loftslagsmálum og til að hvetja fólk til að kjósa með loftslagsmál í huga. Þetta var 146. loftslagsverkfallið á Austurvelli.

Ungt fólk hefur safnast saman á Austurvelli í tvö og hálft ár til að krefjast fullnægjandi aðgerða í loftslagsmálum. Þegar samkomutakmarkanir voru sem harðastar voru verkföllin á samfélagsmiðlum og í dag var mesti fjöldi samankominn á  Austurvelli síðan fyrir kórónuveirufaraldurinn.

„Við viljum meina að við höfum náð að ýta einhverju af stað í loftslagsmálunum,“ segir Egill Ö. Hermannsson, varaformaður Ungra umhverfissinna og einn skipuleggjenda loftslagsverkfallsins. „En við viljum sjá miklu meiri aðgerðir til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar á alþjóðavísu, þ.e. Parísarsamkomulagið.“

Egill segir að augljóst sé að loftslagsmálin séu eitt af aðalmálunum í kosningabaráttunni, en flokkarnir virðist hafa mismikinn áhuga á þeim. „Þetta er upp á líf og dauða, það er engin spurning. “

Og Egill segir að haldið verði áfram að mótmæla svo lengi sem ástæða sé til. „Við höldum áfram hér á Austurvelli á hverjum einasta föstudegi og mótmælum aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum.“