Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hærri fjárhæðir, fleiri sakborningar og ítrekuð samtöl

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ný gögn í Samherjamálinu sýna að svo virðist sem víðtæk vitneskja hafi verið innan fyrirtækisins um mútugreiðslur og vafasama starfshætti Samherja í Namibíu. Gögnin eru hluti af rannsókn héraðssaksóknara á málinu. Átta eru nú með réttarstöðu sakbornings í málinu hér á landi.

Gæti skipt máli að múta

Stundin er með mjög ítarlega umfjöllun um Samherja í nýjasta tölublaði sínu sem kom út í morgun. Greinarnar spanna sjö opnur, prýddar teiknuðum myndum af helstu persónum og leikendum. Blaðamennirnir Aðalsteinn Kjartansson og Ingi Freyr Vilhjálmsson hafa undir höndum ný gögn í tengslum við Namibíumálið þar sem kemur meðal annars fram að Aðalsteinn Helgason, fyrrverandi umsjónarmaður Afríkuútgerðar Samherja, skrifaði í skilaboðum árið 2011 til Jóhannesar Stefánssonar uppljóstrara að á einhverju stigi kynni „að skipta máli að múta einhverjum leiðtoga þessara manna“.

Þarf allt að vera í póstum? 

Stjórnendur Samherja hafa sagt að þeir hafi ekki vitað af greiðslum Jóhannesar en þau gögn sem Stundin vísar til, í blaði dagsins, benda til annars. Þá kemur fram að Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri hafi slegið á fingur undirmanna sinna í tölvupósti 2012 og spurt hvort allt þurfi að vera til í póstum á milli manna. Þor­steinn Már var yf­ir­heyrð­ur í ann­að sinn hjá héraðssaksóknara í sum­ar og tilkynnti hann þar að hann ætl­aði ekki að svara nein­um spurn­ing­um.

Gögnin sýna hins vegar hvernig yfirmaður hans beinlínis lagði til að mútur yrðu greiddar. „Er hugsanlegt að múta einhverjum?“ spurði Aðalsteinn Helgason, einn nánasti samstarfsmaður Þorsteins Más, strax árið 2012, þegar Samherji var að hefja innreið sína í landið. Og stuttu síðar tók hann af allan vafa um að beita mætti hótunum. „Ég á við hvort hægt sé að beita hótunum,“ skrifaði hann. 
- Stundin, 24.9.2021

Sömuleiðis greinir Stundin frá fundi feðganna Þorsteins Más og Baldvins Þorsteinssonar með Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, og Daniel Levin, stjórnarmanni bankans, árið 2011. Þar voru áætlanir Samherja um útrás til Afríku ræddar ítarlega og ýmiss ráð gefin frá bankanum, en bæði Birna og Daniel segja við Stundina að þau hafi ekki haft hugmynd um hvernig þetta ætti allt saman eftir að æxlast. 

Tæpir tveir milljarðar til rannsóknar

Heildarupphæðin, sem yfirvöld gruna Samherja um að hafa greitt sem mútur til að fá namibískan kvóta, komin upp í 1,7 milljarða króna, sem er töluvert hærri fjárhæð en áður hefur verið greint frá. Átta manns eru með réttarstöðu sakbornings í málinu á Íslandi. Auk Þorsteins Más, Aðalsteins og Jóhannesar, eru það Arna McClure, yfir­lög­fræð­ingur fyrirtækisins, Ingvar Júl­í­us­son, fjár­mála­stjóri á Kýp­ur, Jón Óttar Ólafs­son, ráð­gjafi og fyrr­ver­andi rann­sókn­ar­lög­reglu­maður, Egill Helgi Árna­son, fram­kvæmda­stjóri í Namib­íu og Ingólfur Pét­urs­son, fyrr­ver­andi fjár­mála­stjóri Sam­herja í Namib­íu. Stundin segir margt benda til þess að starfsmenn Samherja hafi gengið út frá því að Þorsteinn Már þyrfti að samþykkja stórar aðgerðir áður en þær kæmu til framkvæmda. Jóhannes talaði um hann sem „big boss“ og vísar forsíðufyrirsögn Stundarinnar, Stóri stjóri, til þessa.

Gögnin sýna sömuleiðis að Þorsteinn Már átti fjölmarga fundi, fleiri en áður hefur verið greint frá, í eigin persónu með „hákörlunum“, namibísku ráða- og áhrifamönnunum, sem nú sitja bak við lás og slá í Namibíu og bíða þess að koma fyrir dóm.